27 Október 2007 12:00

Banaslys varð á áttunda tímanum í gærkvöldi, 26. október á norðanverðri Holtavörðuheiði.  Tvær bifreiðar rákust saman með þeim afleiðingum að farþegi annarrar bifreiðarinnar lést.  Ökumaður og farþegi þeirrar bifreiðar, sem eru hjón, voru flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur, á slysadeild.  Þau gengust undir aðgerð á Landspítala háskólasjúkrahúsi og er líðan þeirra stöðug og eftir atvikum góð.

Ökumaður og farþegi hinnar bifreiðarinnar voru flutt með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnunina í Borgarnesi, með minniháttar áverka.

Konan sem lést var á sextugsaldri.  Hún var erlendur ríkisborgari og var á ferð með samlöndum sínum, stödd hér á landi tímabundið.

Lögreglan á Vestfjörðum sem fer með rannsókn málsins, leitar vitna að slysinu og eru þau beðin um að hafa samband í síma 450-3730.

Fjöldi aðila tók þátt í björgunaraðgerðum á vettvangi, auk lögreglunnar á Vestfjörðum var þar lögreglan í Borgarnesi, Búðardal og Blönduósi, ásamt sjúkraliði frá nærliggjandi stöðum.  Eins og fram hefur komið tók þyrla Landhelgisgæslunnar þátt í aðgerðunum.