14 Nóvember 2003 12:00
Föstudagur 14. nóvember 2003
Banaslys á Reykjanesbraut
Kl. 14:41 var tilkynnt um alvarlegt umferðarslys á Reykjanesbraut skammt austan við Grindavíkurafleggjara.
Þarna hafði fólksbifreið verið ekið í átt til Reykjavíkur og útí vegkantinn til að víkja fyrir umferð sem á eftir kom. Þar var bifreiðinni ekið aftan á aðra fólksbifreið sem mun hafa verið kyrrstæð í vegkantinum með þeim afleiðingum að sú bifreið kastaðist útaf veginum og endaði á hvolfi utan vegar. Ökumenn voru einir í bifreiðunum og voru báðir fluttir með sjúkrabifeiðum á Slysadeild í Fossvogi. Skömmu síðar var ökumaður annarrar bifreiðarinnar úrskurðaður látinn, en hinn hlaut minni háttar meiðsl að talið er.
Annað umferðaróhapp varð á slysstaðnum þegar ökumaður bifreiðar stöðvaði bifreið sína vegna fyrra slyssins og var annarri bifreið þá ekið aftan á bifreið hans. Engin slys á fólki urðu í því tilviki, en önnur bifreiðin var það mikið skemmd að hún var óökufær.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um tildrög slyssins eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í Keflavík í síma 4202400.