19 Maí 2004 12:00
Miðvikudaginn 19.05.04, kl. 06:38, barst lögreglu tilkynning um umferðarslys á Reykjanesbraut á Strandarheiði. Svo virðist sem ökumaður jeppabifreiðar sem ekið var austur Reykjanesbraut áleiðis frá Keflavík til Reykjavíkur hafi misst stjórn á bifreiðinni móts við mislæg gatnamót sem unnið er að vegna tvöföldunar Reykjanesbrautarinnar, skammt vestan við Kúagerði. Bifreiðin mun hafa lent utaní vegriði brúarinnar og síðan á ljósastaur austan hennar. Bifreiðin mun síðan hafa oltið og hafnað á öðrum ljósastaur austan fráreinar við gatnamótin þar sem hún stöðvaðist á hjólunum.
Tvennt var í bifreiðinni og mun ökumaðurinn, karlmaður um fimmtugt, hafa látist samstundis, en farþeginn, kona á fimmtugsaldri, slasaðist lítils háttar og var flutt með sjúkrabifreið á Landsspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.
Að svo stöddu er ekki unnt að birta nafn hins látna.
Hafi vegfarendur orðið vitni að slysinu eru þeir vinsamlegast beðnir að hafa samband við lögrelguna í Keflavík í síma 420-2400.