24 September 2003 12:00

Miðvikudagur  24. september 2003.

Kl. 07:06 var tilkynnt um alvarlegt umferðarslys á Reykjanesbraut rétt austan við Grindavíkurveg.  Lögregla, sjúkralið og tækjabifreið frá slökkviliðinu fóru á vettvang.  Tvær fólksbifreiðar höfðu lent saman og voru ökumennirnir einir í bifreiðum sínum.  Annarri fólksbifreiðinni var ekið vestur Reykjanesbraut en skammt frá Grindavíkurvegi missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni.  Bifreiðin lenti utan í ljósastaur, þaðan yfir umferðareyju sem aðskilur akreinarnar, kastaðist í loft upp og lenti ofan á toppi bifreiðar sem var nýkomin inn á Reykjanesbraut til austur af Grindavíkurvegi.  Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeildina í Fossvogi í Reykjavík til aðhlynningar.  Beita þurfti klippum á aðra bifreiðina til að ná ökumanninum út.  Ökumaður þeirrar bifreiðar var fluttur meðvitunarlaus á sjúkrahús alvarlega slasaður og lést hann þar nokkru síðar.