28 Nóvember 2007 12:00

Ökumaður fólksbifreiðar lést í umferðarslysi á Suðurlandsvegi um 300 metra vestan við Litlu kaffistofuna.  Það var laust fyrir klukkan tvö í dag að Neyðarlínu barst tilkynning um alvarlegt umferðarslys á Suðurlandsvegi.  Lögreglulið, sjúkralið frá Selfossi og höfuðborgarsvæðinu fór á vettvang ásamt tækjabílum frá Slökkviliði Hveragerðis og höfuðborgarsvæðinu.  Þarna hafði fólksbifreið á leið austur farið yfir á rangan vegarhelming og lent þar framan á vinstra framhorni vörubifreiðar, sem var fulllestuð af malarefni, á leið vestur.  Ökumenn voru einir í bifreiðum sínum og er talið að ökumaður fólksbifreiðarinnar, karlmaður á áttræðisaldri, hafi látist samstundis.  Ökumaður vörubifreiðarinnar slasaðist óverulega. 

Suðurlandsvegi hefur verið lokað og umferð beint um gamla Suðurlandsveginn austan við Sandskeið.  Vegurinn var blautur þegar slysið átti sér stað en engin hálka. 

Orsök slyssins er ókunn en rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi fer með rannsókn og hefur kallað sér til aðstoðar sérfræðinga til að mæla upp vettvang, rannsaka ökutækin og reikna út ökuhraða.  Starfsmenn Rannsóknarnefndar umferðaslysa kom á vettvang og fara með sjálfstæða rannsókn.  Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem voru vitni að slysinu,  aðdraganda þess  eða búa yfir einhverjum upplýsingum sem að gagni geta komið að hafa samband í síma 480 1010.