11 Apríl 2008 12:00

Ökumaður lítillrar sendibifreiðar lést í hörðum árekstri sem varð rétt fyrir klukkan átta í morgun á Suðurlandsvegi í Ölfusi á móts við Hvammsveg við Gljúfurárholt.  Áreksturinn varð með þeim hætti að pallbifreið sem var á leið vestur Suðurlandsveg fór yfir á rangan vegarhelming og framan á vinstra horn vörubifreiðar sem kom á móti.  Pallbifreiðin rann áfram með vinstri hlið vörubifreiðarinnar og skall framan á sendibifreiðinni sem ekið var á eftir vörubifreiðinni.  Sendibifreiðin kastaðist út fyrir veg.  Ökumaður hennar var fluttur með þyrlu á Slysadeild Landspítala í Fossvogi þar sem hann var síðan úrskurðaður látinn.  Ökumaður pallbifreiðarinnar var einnig fluttur með þyrlunni en mun ekki hafa verið alvarlega slasaður.  Fulltrúi Rannsóknarnefndar umferðarslysa fór á slysavettvang.  Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn málsins og fékk á vettvang þrjá sérfræðinga sem sjá um rannsókn ökutækja, reikna út ökuhraða og mæla upp vettvang.  Ekki liggur fyrir að svo komnu máli um aðdraganda slyssins annað en það að pallbifreiðin fór yfir á öfugan vegarhelming og að ökumaður vörubifreiðarinnar hafði vikið undan eins mikið og hann hafði svigrúm til.  Aðstæður til aksturs voru mjög góðar, þurr vegur, veður bjart og gott.  Hinn látni var karlmaður rúmlega sextugur.  Suðurlandsvegur var lokaður frá klukkan átta en var opnaður rétt fyrir klukkan ellefu.  Ekki var hægt að nýta Hvammsveg sem hjáleið þar sem vettvangurinn náði yfir vestari gatnamót hans og Suðurlandsvegar.  Umferð var því beint um Eyrarbakkaveg og Þrengsli.  Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem vitni voru að slysinu og lögregla hefur ekki þegar náð til að hafa samband í síma 480 1010.