11 September 2007 12:00
Lögreglunni á Selfossi barst kl. 18:17 í dag, þriðjudag, tilkynning um mjög alvarlegt umferðarslys á Suðurlandsvegi í Ölfusi rétt vestan við veginn að Kirkjuferju. Þar hafði fólksbifreið á austurleið lent framan á vörubifreið sem var á leið vestur. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var einn í bifreiðinni og mun hafa látist samstundis. Ökumaður vörubifreiðarinnar, sem einnig var einn, var fluttur á slysadeild Landspítala til rannsóknar en talið var að hann hafi sloppið með minni háttar meiðsli. Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn málsins og hefur kallað sér til aðstoðar sérfræðinga til að rannsaka ökutækin. Rannsóknarnefnd umferðarslysa fer með sjálfstæða rannsókn á slysinu. Um aðdraganda slyssins er ekki vitað annað en að framendar ökutækjana lentu saman. Suðurlandsvegur var lokaður í nokkarar klukkustundir og umferð beint á Hvammsveg á meðan vettvangsvinna fór fram. Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem voru sjónarvottar að árekstrinum eða aðdraganda hans að hafa samband í síma lögreglunnar 480 1010.