23 Júlí 2022 11:08

Um kl. 19:00 föstudaginn 22. júlí barst lögreglu tilkynning frá vegfarendum um rásandi aksturlag bifreiðar í Hvalfjarðargöngunum á leið vestur.  Lögreglumenn á Vesturlandi fóru frá Akranesi í átt að göngunum til þess að kanna með ökumann þessa ökutækis.  Á leið sinni að Hvalfjarðargöngum mættu þeir bifreiðinni á Akrafjallsvegi.  Lögreglumenn snéru við og hugðust stöðva akstur ökumanns og kanna ástand hans en þá hafði hann sýnilega þegar aukið ferðina verulaga og langur vegur á milli bifreiðar hans og lögreglumanna.  Ökumaður ók siðan fram úr strætisvagni á ógnarhraða að sögn vitna og fyrir framan strætisvagninn á miðjum Akrafjallsvegi virðist ökumaður hafa misst stjórn á bifreiðinni og hafnaði utan vegar.  Bifreiðin fór nokkarar veltur að sögn vitna í strætisvagninum og virðist sem ökumaður hafi kastast út úr bifreiðinni við það.  Endurlífgun lögreglu og sjúkraliðs sem kom á vettvang bar ekki árangur.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi rannsakar slysið og nýtur aðstoðar tæknideildar Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu.   Rannsóknarnefnd samgönguslysa kom á vettvang.