23 Mars 2023 08:43

Um hálf ellefu í gærmorgun barst lögreglu tilkynning um að erlendur ferðamaður hafi fallið niður í gilið við fossinn Glym í Hvalfirði.

Lögreglan á Vesturlandi ásamt sjúkraliði og fjölmennu liði frá björgunarsveitunum fóru á vettvang ásamt því að þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út.

Aðstæður voru erfiðar á vettvangi og fóru björgunarsveitarmenn upp gilið og komu að þar sem kona á þrítugsaldri fannst látin. Hún ásamt maka sínum höfðu verið tvö á gönguferð upp með gilinu að ofanverðu við Glym og hún fallið fram af brúninni. Fallið var mjög hátt og ljóst að konan lést samstundis.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi vinnur að rannsókn málsins.

Lögreglan á Vesturlandi vill koma framfæri þökkum til allra þeirra sem komu að björgunaraðgerðum.