19 September 2007 12:00
Ökumaðurinn sem slasaðist alvarlega í umferðarslysinu sem varð sl. mánudag við bæinn Klukkufell í Reykhólasveit er látinn. Maðurinn, sem var einn í bifreiðinni, hlaut alvarlega áverka m.a. á höfði. Hann var meðvitundarlaus þegar björgunaraðilar komu að og komst aldrei til meðvitundar. Svo virðist sem ökumaðurinn hafi misst stjórn á bifreiðinni og hún runnið út af veginum, vinstra megin miðað við akstursstefnuna og oltið þar nokkrar veltur uns hún stöðvaðist. Yfirborð vegarins, þar sem slysið varð, er bundið slitlagi. Akstursskilyrði voru góð, engin hálka mun hafa verið á veginum. Hinn látni var tvítugur karlmaður af erlendu bergi brotinn. Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar tildrög slyssins.