13 Desember 2006 12:00

Lögreglunni í Reykjavík berst nokkuð af kvörtunum vegna bíla sem er illa lagt eða jafnvel ólöglega.  Hætt er við að slíkum kvörtunum muni ekki fækka í jólaösinni og því er rétt að rifja upp nokkur bannmerki. Bannað að leggja ökutæki er merkið sem við nefnum fyrst til sögunnar.  Bannið tekur aðeins til þess vegarhelmings sem merkið er á. Það gildir í akstursstefnu frá þeim stað þar sem merkið er og að næstu vegamótum, nema að annað sé tilgreint.

Mörk svæðis þar sem heimild til að leggja ökutæki er takmörkuð. Merkið er notað við akstursleiðir inn á svæði þar sem bannað er að leggja ökutæki nema í takmarkaðan tíma. Nánari upplýsingar um takmörkun eru letraðar á merkið.

Allur akstur bannaður. Þetta bannmerki er sömuleiðis mjög mikilvægt að virða. Það merkir að umferð hvers konar ökutækja er bönnuð í báðar akstursáttir.

Bannað að stöðva ökutæki. Hliðstæðar reglur gilda um þetta merki og það sem fyrst var nefnt. Bannað er að stöðva ökutæki, enda sé stöðvun eigi nauðsynleg vegna annarrar umferðar.

Heimild: Vegagerðin