16 Apríl 2008 12:00

Hið árlega Bekkpressumót Íþróttafélags lögreglunnar fór fram í íþróttasal Lögregluskóla ríkisins miðvikudaginn 15. apríl. Þátttaka var góð, keppt var í þremur þyngdarflokkum karla og í kvennaflokki. Sigurvegari þar varð Bjarney Annelsdóttir, sem er kennari við Lögregluskóla ríkisins. Aðrir sigurvegarar voru Heiðar Ingi Heiðarsson í 85 kg flokki; Ásmundur Örn Guðmundsson í 100 kg flokki og Gísli I. Þorsteinsson, aldursforseti mótsins, í +100 kg flokki.

Gestakeppandi var sr. Gunnar Sigurjónsson, sóknarprestur í Digraneskirkju, sem nú í vor stefnir á að verja titilinn Sterkasti prestur í heimi. Eftir að hafa fylgst með honum á mótinu, þar sem hann lyfti 150 kg, má telja að sigurlíkur hans séu býsna góðar þar.

Mótið þótti takast mjög vel í alla staði, frábær stemming var og skemmtileg tilþrif keppenda sáust. Keppendur höfðu á orði að aðstaðan í líkamsræktarsal Lögregluskólans væri mjög góð, bjart og rúmgott húsnæði.

Á myndinni eru þeir Gísli I. Þorsteinsson og sr. Gunnar Sigurjónsson, kampakátir eftir vel heppnað mót – einnig sést í Björn Má Sveinbjörnsson, sem varð í öðru sæti í sínum flokki.