26 Mars 2006 12:00

Í dag fór fram í Rangárvallasýslu umfangsmikil æfing, Bergisinn 2006, sem haldin var á vegum Sýslumannsins á Hvolsvelli, ríkislögreglustjóra, Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Landhelgisgæslunnar auk fjölmargra annarra viðbragðsaðila svo sem starfsmanna orkufyrirtækjanna.  Æfð voru viðbrögð vegna eldgoss í Mýrdalsjökli og jölkulhlaups niður Markarfljótsaura.  Mikill fjöldi fólks kom að æfingunni sem hófst fyrir hádegið og léku íbúar undir Eyjafjöllum, Landeyjum, Fljótshlíð og Þykkvabæ lykilhlutverk en íbúðarsvæði á viðkomandi stöðum var rýmt samkvæmt áætlun. 

Æfingin þykir hafa heppnast vel og áætlanir gengu eftir í flestum atriðum en eðli máls samkvæmt er einatt einhver atriði sem betur mega fara og er æfing sem þessi því nauðsynleg til að bæta kerfið enn frekar.  Þátttaka íbúa á svæðinu var mjög góð sem m.a. var ætluð til að gera þá meðvitaða um rétt viðbrögð við náttúruvá.  Fjöldahjálpastöðvar á vegum Rauða kross Íslands, Rangárvallasýsludeildar, voru opnaðar á Hellu, Hvolsvelli og í Skógum undir Eyjafjöllum.  Alls voru skráðir tæplega 700 íbúar inn á fjöldahjálparstöðvarnar.

Aðgerðarstjórn æfingarinnar var staðsett í húsi Flugbjörgunarsveitainnar á Hellu en vettvangsstjórn var stýrt frá lögreglustöðinni á Hvolsvelli.  Meðfylgjandi ljósmynd er af þeim aðilum er stóðu við stjórnvölinn á lögreglustöðinni á Hvolsvelli, frá vinstri; Gils Jóhannsson lögregluvarðstjóri, Baldur Ólafsson formaður björgunarsveitarinar Dagrenningar á Hvolsvelli, Guðmundur Benediktsson yfirlæknir á Hvolsvelli og Rúnar Guðmundsson byggingafulltrúi Rangárþings eystra.

Skipuleggjendur æfingarinnar vilja koma á framfæri miklu og góðu þakklæti til allra þeirra sem þátt tóku í æfingunni á einn eða annan hátt, ekki síst til íbúa í Rangárvallasýslu sem brugðust mjög vel við og sýndu mikinn áhuga á málefninu með góðri þátttöku sem var vonum framar.  Æfingunni lauk síðan um kl.15:30.