15 Júní 2008 12:00

Mikil ölvun og ólæti voru í miðbæ Akureyrar s.l. nótt. Mikið var um slagsmál en ekki er vitað til að alvarleg meiðsl hafi hlotist af en einn maður var fluttur á sjúkrahús til skoðunar. Talsvert var um minniháttar skemmdarverk og voru voru m.a. rúður brotnar á þremur stöðum og bíll skemmdur með því að henda í hann flösku.

Á þriðja tímanum í nótt var skoteldatertu skotið lárétt yfir Ráðhústorg og beint að lögreglumönnum og öðrum sem þar voru. Mildi var að enginn slasaðist og óskar lögreglan eftir upplýsingum um þá sem þarna voru að verki. Þá virtist sem fleiri skoteldar væru í umferð og tók lögreglan m.a. rakettu af einum manni. Nokkru síðar var gerður aðsúgur að lögreglumönnum sem voru að handtaka mann og reynt að hindra handtökuna. Komu aðrir lögreglumenn til aðstoðar og þurftu þeir að beita bæði kylfum og varnarúða. Mikil ólæti voru síðan fram undir morgun og hafði lögreglan í nógu að snúast alla nóttina. Fjölmennt lögreglulið var við gæslu í miðbænum og veitti ekki af en athygli vakta hvað framkoma fólks var gróf og ruddaleg og var lögreglan m.a. grýtt með dósum og flöskum sem hún á ekki að venjast hér en sem betur fór slasaðist samt engin. Átta voru handteknir og settir í fangageymslur.