28 Janúar 2013 12:00

Það óhapp varð um helgina að stúlka sem ók eftir Garðskagavegi missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að bifreiðin valt og staðnæmdist á toppnum utan vegar. Stúlkan var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Hún reyndist hafa sloppið ómeidd. Kranabifreið var fengin til að fjarlægja bifreiðina.

Þá varð árekstur, einnig á Garðskagavegi, þar sem tvær bifreiðar skullu saman. Ekki urðu slys á fólki en kranabifreið þurfti til að fjarlægja þær.

 Bifreið ekið á gaskúta

Það óhapp varð um helgina að bifreið var ekið inn í port hjá Olís í Grindavík og á skáp sem hafði að geyma gaskúta. Þar sat bifreiðin föst. Hún var losuð og slapp ökumaður ómeiddur.

Þá var lögreglunni á Suðurnesjum tilkynnt um að bifreið hefði verið ekið upp á steyptan kant við hús í Keflavík. Ökumaður var búinn að kalla til dráttarbifreið, þegar lögregla kom á vettvang, en kalla þurfti út slökkvilið til að hreinsa upp olíu sem lekið hafði úr bílnum við höggið.

Með amfetamín í sokknum

Lögreglan á Suðurnesjum handtók tæplega þrítugan karlmann við fíkniefnaeftirlit á skemmtistöðum í umdæminu um helgina. Maðurinn reyndist vera með amfetamín í sokk sínum og var hann færður á lögreglustöð, þar sem hann gekkst við því að eiga efnið. Hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Þá afhenti borgari lögreglu plastpoka sem hafði að geyma meint kannabisefni. Pokann hafði hann fundið í polli skammt frá heimili sínu.