28 Febrúar 2014 12:00

Bjarni Jóhann Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn lætur í dag af starfi við embætti ríkislögreglustjóra fyrir aldurs sakir eftir 40 ára starf í lögreglu. Bjarni var skipaður aðstoðaryfirlögregluþjónn við embætti ríkislögreglustjóra þann 1. júlí 1997 og hefur því starfað við embættið frá stofnun þess.

Bjarni hóf störf sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Starfaði í umferðardeild, rannsóknardeild, almennri deild og tæknideild. Hann starfaði sem rannsóknarlögreglumaður í tæknideild Rannsóknarlögreglu ríkisins frá árinu 1981 til 30. júní 1997. Bjarni var kennari við Lögregluskólann árin 1988 til 1992.

Bjarni var skipaður í rannsóknarnefnd ID-nefnd til að bera kennsl á látna menn frá 1989 og hefur sinnt starfi formanns nefndarinnar. Bjarni fór til Kosovo í ágúst 1999 og dvaldi þar í tvær vikur við rannsókn voðaverka Serba í héraðinu. Þá fór Bjarni ásamt kennslanefnd ríkislögreglustjóra til Phuket í Taílandi í janúar 2005 í kjölfar flóðbylgju er skall á suðurhluta Taílands.

Í kveðjukaffi ríkislögreglustjóra Bjarna til heiðurs þakkaði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri Bjarna fyrir vel unnin störf og færði honum heiðurspeninga er gerðir voru í tilefni af 200 ára afmæli hinnar einkennisklæddu lögreglu árið 2003.