21 Febrúar 2012 12:00
Lögreglan minnir á að svokölluð bjórkvöld framhaldsskólanna á veitinga- og/eða skemmtistöðum eru ekki skólaböll og því er ekki sótt um leyfi fyrir samkomunum. Þær eru því alfarið á ábyrgð leyfishafa hlutaðeigandi veitinga- og/eða skemmtistaðar. Minnt er á að fáir nemar framhaldsskólanna eru orðnir 20 ára og er því ólögmætt að veita þeim áfengi. Enginn undir 20 ára aldri á að vera með áfengi við hönd og enginn undir 18 ára aldri á að vera yfir höfuð inni á slíkum stað (nema í fylgd forráðamanna).
Þetta er ítrekað hér því á höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi fór svokallað bjórkvöld algjörlega úr böndunum. Þegar lögreglan kom á umræddan stað voru þar 200-300 ungmenni og mörg þeirra undir áhrifum áfengis, en þau yngstu eru 16 ára. Sala áfengis var umsvifalaust stöðvuð og staðnum lokað.
Undanfarið hefur lögreglan fylgst með dvöl ungmenna á veitinga- og skemmtistöðum og svo verður áfram. Reynslan sýnir að full þörf er á slíku eftirliti en lögreglan hvetur jafnframt rekstraraðila til að fara að lögum því annars geta þeir búist við viðurlögum, t.d. sviptingu eða afturköllun rekstrarleyfis.