9 Febrúar 2012 12:00

Lögreglufulltrúinn Gísli Þorsteinsson er einn margra landsmanna sem fer í Blóðbankann og gefur blóð. Raunar gerir Gísli gott betur því hann hefur farið í Blóðbankann 150 sinnum í þessum erindagjörðum. Hann var nýkominn í lögregluna fyrir bráðum 40 árum þegar félagi á vaktinni fór í Blóðbankann og tók Gísla með. Síðasta heimsókn lögreglufulltrúans í Blóðbankann var í dag og þá var honum færður konfektkassi vegna þessara tímamóta en afar fáir hafa gefið blóð jafnoft og Gísli. Hann segir sjálfur að þetta sé sjálfsagt mál og það sé gott að geta orðið að liði. Gísli, sem er hvergi nærri hættur að heimsækja Blóðbankann, hvetur jafnframt aðra til að gera slíkt hið sama og lögreglan tekur að sjálfsögðu undir það. Margir aðrir starfsmenn lögreglunnar hafa einmitt gefið blóð í gegnum tíðina og á því verður örugglega engin breyting.

BLÓÐBANKINN

Gísli mættur í Blóðbankann.