4 Mars 2007 12:00

Í síðastliðinni viku hélt lögreglan á Vestfjörðum fjóra borgarafundi í byggðarkjörnum á svæðinu.  Haldnir voru fundir á Þingeyri,  Flateyri, Suðureyri og á fimmtudagskvöld var fundur á Ísafirði.  Fundarsókn var nokkuð misjöfn en fundirnir áttu sér það allir sammerkt að líflegar umræður urðu um löggæslumál í viðkomandi byggðarkjarna.  Á Flateyri spunnust umræður um hraðakstur innanbæjar og umferð stórra bifreiða í nágrenni við grunnskólann. Nokkið svipuð umræða varð á Suðureyri en þar taldi fólk sig hafa orðið vart við minnkandi eftirlit lögreglu.

Á Ísafirði komu fram fyrirspurnir um akstur mótorkrosshjóla í nágrenni við bæinn og möguleika á sérstöku svæði til aksturs slíkra hjóla.  Þá var rætt um  löggæslukostnað vegna skemmtanahalds en mismunandi verklag hafði verið vegna slíkrar innheimtu í þeim fjórum lögregluliðum sem sameinuðust um áramótin.  Kristín Völundardóttir lögreglustjóri kynnti að ekki yrði innheimtur sérstakur löggæslukosnaður til viðbótar við fast gjald skemmtanaleyfis varðandi hefðbundna dansleiki svo sem þorrablót og annað slíkt.  Að öðru leiti yrði það mat embættisins hvort skemmtanir væru með þeim hætti að greiða þurfi fyrir sérstaka löggæslu.