21 Febrúar 2007 12:00

Frá borgarafundinum á Hólmavík

Borgarafundur var haldinn á vegum Lögreglunnar á Vestfjörðum með íbúum Hólmavíkur í gærkvöldi.  Samkvæmt nýju skipulagi lögreglumála frá áramótum sameinaðist lögreglan á Hólmavík þremur öðrum lögregluliðum undir merkjum lögreglunnar á Vestfjörðum. Fundurinn heppnaðist í alla staði vel og voru löggæslumál staðarins rædd og settu íbúar fram sjónarmið sín og ræddu það sem betur mætti fara í málaflokknum.  Meðal annars lýstu íbúar áhyggjum sínum með fjarveru lögreglumanna frá byggðalaginu þegar þeir væru að sinna umferðareftirliti á Holtavörðuheiði en þangað er um tveggja klukkustunda akstur frá Hólmavík. Yfirstjórn embættisins lýsti því yfir að fyrirkomulag á þessu eftirliti væri í endurskoðun en í framtíðinni yrði reynt að tryggja nálægð lögreglumanna við þéttbýlisstaði á Ströndum en með stærra lögregluliði væru meiri möguleikar til að bregðast við slíkum tilfellum. Bæjarbúar lýstu yfir ánægju með aukna löggæslu á umferðartímum við skóla og aðgang að meiri þjónustu lögreglunnar varðandi rannsóknir  og í forvarnarmálum.