14 Febrúar 2007 12:00

Í gærkvöldi var haldinn borgarafundur á Patreksfirði þar sem bæjarbúar gátu komið sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi löggæslu á svæðinu.  Fulltrúar lögreglunnar á Vestfjörðum kynntu núverandi skipulag og nýbreytni  í störfum lögreglu í kjölfar sameiningar fjögurra lögregluliða um áramót.  Gagnleg umræða varð á fundinum og komu þar fram ýmis sjónarmið er varða hagsmuni bæjarbúa í tengslum við löggæslu, forvarnir  og mál sem tengjast málaflokknum á Patreksfirði.  Fundarmenn létu í ljós mikla ánægju með aukna sýnilega löggæslu við grunn- og leikskóla á Patreksfirði en undanfarið hafa lögreglumenn á Vestfjörðum lagt áherslu á umferðareftirlit við skóla.