8 Mars 2007 12:00

Í gærkvöldi hélt Lögreglan á Vestfjörðum borgarafund í félagsheimilinu Víkurbæ í Bolungarvík.  Eftir að kynningarerindi höfðu verið flutt fóru fram almennar umræður um löggæslumál og sameiningu lögregluembætta um áramót.    Fram kom á fundinum gagnrýni vegna þess hve seint væri farið í að kynna starfsemi lögreglunnar í Bolungarvík enda hafi breytingar orðið mestar þar af öllum stöðum í umdæminu.

Þessi fundur var 12. og síðasti borgarafundurinn sem lögreglan á Vestfjörðum hélt til að kynna hið nýja lögreglulið.

Fram kom að forvarnar- og fræðslufulltrúi lögreglunnar er með starfsstöð í Bolungarvík en almennu eftirliti er sinnt frá lögreglustöðinni á Ísafirði.  Öll þau erindi sem hinn almenni borgari kemur með á lögreglustöðina í Bolungarvík mun forvarnar og fræðslufulltrúi sinna og afgreiða, sé hann er viðlátinn.  Að öðrum kosti þarf fólk að hafa símasamband við lögreglu til að fá úrlausn sinna erinda eða mæla sér mót við lögreglumenn á lögreglustöðinni í Bolungarvík.  Þá kom fram að í Bolungarvík eru nú búsettir tveir lögreglumenn og tveir héraðslögreglumenn (varalögreglumenn). Þessir aðilar verða kallaðir út ef hættuástand skapast í Bolungarvík og ekki er fært á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

Fram kom í lok fundarins að sumir fundarmenn töldu þetta nýja fyrirkomulag vera framfaraspor og auka aðgengi íbúa Bolungarvíkur að faglegri þjónustu í þessum málaflokki og mundi frekar auka öryggi bæjarbúa.