16 Mars 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum handtók síðastliðna nótt karlmann sem grunaður er um að hafa brotist inn í sautján bíla í umdæminu, alla í sömu atrennunni. Lögregla fékk tilkynningu um að maður væri að reyna að komast inn í bíla á tilteknu svæði og fór þegar á staðinn.  Ný spor í snjónum leiddu lögreglumenn að bíl einum og undir honum reyndist maður liggja í felum. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Viðurkenndi hann að hafa brotist inn í bíla á umræddu svæði. Hann hafði töluvert af smámynt upp úr krafsinu, en einnig fundust hjá honum munir sem grunur leikur á að séu þýfi.

Lögreglan brýnir fyrir fólki að ganga vel og tryggilega frá bílum sínum, læsa þeim og láta ekki verðmæti liggja á glámbekk í þeim.

Þrettán spor eftir innbrot

Brotist var inn í tvö fyrirtæki í umdæmi Lögreglunnar á Suðurnesjum nú í vikunni. Í öðru tilvikinu var rúða fyrir ofan hurð brotin með því að kasta gangstéttarhellu í gegnum hana. Hinn óboðni gestur skreið síðan í gegnum gluggann. Svo virtist sem hann hefði skorið sig við það því mikið blóð var innandyra og farið hafði verið í sjúkrakassa á staðnum. Lögregla rakti slóð mannsins og reyndist hann hafa leitað sér læknishjálpar eftir innbrotið. Hafði þurft að sauma sár á hendi hans með 13 sporum, auk þess sem hann var særður á eyra. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann játaði verknaðinn við yfirheyrslur.

Rúður brotnar í bílum

Nokkuð var um að bílar væru skemmdir í Reykjanesbæ í vikunni, einkum með því að brjóta í þeim rúður. Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um þrjú slík tilvik. Í tveimur þeirra virtist sem um hrein skemmdarverk hafi verið að ræða en í hinu þriðja var farið inn í bifreið og úr henni tekin bensínsög að verðmæti nær 200 þúsund krónur.