26 Mars 2012 12:00

Innbrot í heimahús í Grindavík var tilkynnt til lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Rúða hafði verið brotin í svalahurð og óboðinn gestur farið þar inn. Hann hafði haft á brott með sér sjónvarp, auk þess sem búið var að skemma tvo skjái og fleiri tæki á heimilinu. Lögreglan rannsakar málið.

Með sveðju og fíkniefni

Lögreglan á Suðurnesjum gerði húsleit í íbúðarhúsnæði í umdæminu um helgina, að fengnum dómsúrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Við leitina fannst meint amfetamín í frysti, meint kannabis og amfetamín í örbylgjuofni og hvítt duft í boxi á eldhúsborði. Á háalofti fannst sveðja. Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í tengslum við málið. Játaði hann aðild sína hvað varðaði fíkniefnin sem fundust en neitaði að eiga sveðjuna. Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800 5005 þar sem hægt er að koma gjaldfrjálst á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál undir nafnleynd.

Fjórir án réttinda teknir

Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af fjórum  ökumönnum um helgina, sem allir reyndust vera með ógild ökuskírteini. Í þremur tilvikanna voru ökuskírteinin útrunnin. Í fjórða tilvikinu hafði ökumaðurinn verið sviptur ökuréttindum fyrir fjórum árum þegar hann varð uppvís að ölvunarakstri og þyrfti  að endurtaka ökupróf af þeim sökum. Hann hafði verið kærður tvisvar sinnum fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða eftir að sviptingin rann út. Lögreglan minnir ökumenn á að hafa skilríki sín í lagi.

Á 140 á Reykjanesbraut

Þrír ökumenn reyndust aka langt yfir löglegum hraða á Reykjanesbraut þegar lögreglan á Suðurnesjum var þar við hefðbundið umferðareftirlit um helgina. Sá sem hraðast ók mældist á 140 kílómetra hraða. Hinir tveir óku á 134 og 115 kílómetra hraða. Leyfilegur hámarkshraði á Reykjanesbraut er 90 kílómetrar.

Stútur sviptur

Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af þremur ökumönnum sem grunaðir voru um ölvun við akstur um nýliðna helgi. Þeir voru færðir á lögreglustöð. Í einu þessara tilvika var ökumaðurinn sviptur ökuréttindum vegna ölvunarakstursins.