22 Desember 2005 12:00

Föstudaginn 9. desember 2005 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju. Að þessu sinni var brautskráður 31 nemandi, en þeir hófu nám við skólann í janúarbyrjun 2005. 6 konur voru í hópum eða 19,4%.

Arnar Guðmundsson, skólastjóri, lagði í ræðu sinni áherslu á að þar sem lögreglunám væri að mestu launað þyrfti skipulag námsins að vera gott og tímanum vel varið. Krafist væri reglusemi af lögreglunemum og þeir væru undir aga.

Skólastjóri gat þess að sérstakt átak hafi verið í gangi við skólann síðan árið 2000, er starfsþjálfunarhluti námsins var styttur á sama tíma og skerpt var á bóknámshlutanum. Markmið átaksins var að fjölga faglærðum lögreglumönnum við störf og mennta þá hraðar en áður hafði verið gert; undirliggjandi markmið var að það væru eingöngu faglærðir lögreglumenn sem lokið hafa grunnnámi sem sinni almennum lögreglustörfum í lögreglu ríkisins. Þetta taki hins vegar lengri tíma en ætlað var. Frá og með árinu 2000 hefðu þó alls 250 lögreglumenn verið brautskráðir frá grunnnámsdeild skólans, að þeim meðtöldum sem nú væru að ljúka náminu.

Skólastjóri lagði áherslu á að þegar nýliðarnir hefja almenn lögreglustörf sé mikilvægt að þeir nái fótfestu og bregðist við af fagmennsku og í samræmi við það sem þeir hafa lært í skólanum. Með grunnnáminu væri skólinn að búa nemendur undir það að sinna allri almennri löggæslu við fjölbreytilegar aðstæður, að halda uppi lögum og reglu, greiða götu borgaranna, hjálpa þeim og aðstoða og vinna að forvörnum og uppljóstran brota. Með rökum hafi verið reynt að fá nemendur til að skilja og fallast á hvað væri rétt framkoma og viðhorf við mismunandi aðstæður með tilliti til þeirra væntinga og krafna sem m.a. stjórnvöld og almenningur gera; en í því sambandi skipti miklu máli hvernig lögreglumenn meta aðstæður hverju sinni, málfarið sem notað er og annar tjáningarmáti. Lögreglumenn þurfi í störfum sínum að fara rétt að og sýna frumkvæði, hugrekki, röggsemi auk þess að vera hófsamir í beitingu valds.

Þá minnti skólastjóri nýliðana á að lögreglustarfið væri skemmtilegt og þroskandi starf en að það geti einnig verið erfitt og jafnvel hættulegt. Samfélagið hafi tekið örum breytingum á skömmum tíma þar sem ofbeldi væri sífellt meira áberandi og notkun fíkniefna viðvarandi vandamál. Það minni á andstæðurnar sem blasa við lögreglumanninum, þar sem annars vegar eru “mjúku störfin” sem lögreglan sinnir, að hjálpa, greiða götu fólks og láta það njóta réttinda sinna, og hins vegar “hörðu störfin”, þar sem lögreglan þarf að takast á við ofbeldi og lögreglumenn jafnvel sjálfir að beita valdi.

Þá gat hann þess að nemendur væru rækilega minntir á að skólinn ætlaðist til þess að vinnubrögð lögreglu, nýliða sem og þeirra sem hafa reynslu, eigi ávallt að bera þess merki að lögreglustarfinu sé sinnt af fagfólki sem lært hefur rétt verklag, fer rétt að og leggur sig fram um að skapa sterka liðsheild. Þjálfun og reynsla lögreglumanna byggist á því að menn hafi notið góðrar leiðsagnar í skólanum og njóti þess einnig síðar hjá reyndum mönnum í lögregluliðum en í þessu sambandi hafi yfirmenn og stjórnendur lögregluliðanna mikilvægu hlutverki að gegna.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hélt ræðu við brautskráninguna og sagði m.a. að dómsmálaráðuneytið hafi að undanförnu haft forystu um ýmis nýmæli í starfi og skipulagi löggæslu og nefndi ráðherra sérstaklega tvennt, eflingu sérsveitar lögreglunnar og nýskipan lögregluumdæma.

Ráðherra sagðist hafa heyrt því átaki að efla sérsveit lögreglunnar lýst á þann veg, að í því felist einhver mesta einstaka styrking á almennri löggæslu um margra áratuga skeið og að það gerist samhliða því sem vel menntaðir menn ráðast til starfa í lögreglunni og fjarskipti, tækja- og bílakostur hennar taki stakkaskiptum.

Varðandi nýskipan lögregluumdæma sagði dómsmálaráðherra m.a. að kröfur til lögreglu væru sífellt að aukast á öllum sviðum; hún ætti að vera sýnileg og snör í snúningum; henni bæri að leysa viðfangsefni sín af þekkingu og fagmennsku; lögreglan ætti að fækka afbrotum og upplýsa öll mál, stór og smá. Lögreglan gæti að sjálfsögðu ekki staðið undir þessum kröfum nema hvert og eitt lögreglulið hefði burði til þess. Ráðherra sagði að tillögur um nýskipan lögreglumála miði að því að auðvelda liðunum að svara kalli tímans.

Í lok ræðu sinnar sagðist dómsmálaráðherra vera sannfærður um að það takist að hrinda tillögunum um nýskipan lögreglumála í framkvæmd á jafnfarsælan hátt og hugmyndinni um eflingu sérsveitarinnar.

Ræðu dómsmálaráðherra er að finna í heild sinni á heimasíðu hans, http://www.bjorn.is/.

Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náði Jón Óttar Ólafsson en hann fékk meðaleinkunnina 9,24. Í næstu sætum þar á eftir voru Baldvin Ingi Sigurðsson með meðaleinkunnina 9,21 og Guðmundur Haukur Gunnarsson með meðaleinkunnina 8,82. Meðaleinkunn allra nemendanna var 8,13 sem er með því hæsta sem þekkist innan Lögregluskólans í seinni tíð.

Dómsmálaráðherra afhenti Unni Maríu Sólmundardóttur sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku á lokaprófi.

Þeir lögreglufulltrúar sem starfa við Lögregluskólann völdu úr hópi nemenda “Lögreglumann skólans” og varð Jón Hálfdán Jónasson fyrir valinu að þessu sinni.

Við athöfnina talaði Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, til nemendanna, Gestur Kolbeinn Pálmason hélt ræðu fyrir hönd útskriftarhópsins og Lögreglukór Reykjavíkur söng tvö lög.

Um leið og Arnar Guðmundsson, skólastjóri, þakkaði nemendum góða viðkynningu og samfylgd fyrir hönd skólans hvatti hann þá í lokaorðum sínum til þeirra að vanda sig í starfi, hafa skynsemina að leiðarljósi, bregðast rétt við fyrirmælum yfirmanna, vera nærgætnir, háttvísir, réttsýnir og heiðarlegir; koma fram af myndugleika og festu, vera virkir og vinna markvisst að úrlausn mála.

Þeir nemendur sem voru brautskráðir að þessu sinni hafa lokið almennu grunnnámi frá Lögregluskóla ríkisins og öðlast þekkingu til að takast á við öll almenn löggæslustörf, hvar sem er á landinu.