21 Desember 2004 12:00

Föstudaginn 17. desember 2004 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju. Að þessu sinni voru brautskráðir 35 nemendur, en þeir hófu nám við skólann í janúarbyrjun 2004. 7 konur voru í hópum eða 20%.

Arnar Guðmundsson, skólastjóri gerði í skýrslu sinni grein fyrir ört vaxandi starfsemi í báðum deildum skólans, grunndeild og framhaldsdeild. Hann fagnaði því sérstaklega að lögreglustjórar sæktu nú í ríkum mæli eftir því að koma starfsmönnum sínum að á hin ýmsu starfsþróunarnámskeið sem haldin væru og fjárfesta þannig í menntun þeirra.

Þá fagnaði skólastjóri góðu samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands með því umfangsmikla stjórnendanámi sem fram fer í Lögregluskólanum, en 42 stjórnendur hafa lokið náminu, 23 stunda það nú og ljúka á komandi sumri og 28 hafa verið valdir til að hefja námið í byrjun janúar.

Skólastjóri lýsti ánægju sinni með þann efnilega hóp ungra lögreglumanna sem nú var að ljúka grunnnámi. Tók hann sérstaklega fram að hópurinn hefði stundað vinnu sína vel, sýnt af sér góða framkomu í alla staði og náð góðum árangri. Í lokaorðum sínum til hinna nýju lögreglumanna lagði skólastjóri áherslu á það að miklar kröfur væru gerðar til lögreglu, meðal annars um að hún uppfyllti væntingar borgaranna um ábyrg og fagleg vinnubrögð, en það væri best gert með því að hafa réttlæti og óhlutdrægni að leiðarljósi; en jafnframt að stunda vinnu sína markvisst, koma fram af myndugleika og festu miðað við aðstæður; og umfram allt að fara að lögum.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hélt ræðu við brautskráninguna og sagði m.a. að þegar hann var menntamálaráðherra, gerðist það ekki, að til hans leituðu nemendur eða forráðamenn þeirra til að ræða við hann um inngöngu á þessa námsbraut eða hina. Eftir að hann varð dómsmálaráðherra hafi það hins vegar gerst oftar en hann hefur talið, að komið hafi verið á hans fund og lýst vonbrigðum yfir því að ekki hafi tekist að fá skólavist í Lögregluskóla ríkisins, eða lýst kvíða yfir því að skilyrði til inngöngu í skólann væru of ströng.

Björn sagðist hafa svarað sem er, að hann gæti ekki annað en samsinnt því að greinilega sé slæmt að missa af góðu tækifæri til náms í Lögregluskólanum en hann hins vegar hvorki geta breytt inntökuskilyrðum né gripið fram fyrir hendur valnefndar við skólann og verði að treysta því eins og aðrir, að kröfurnar séu sanngjarnar og taki aðeins mið af því, sem sé skynsamlegt miðað við ábyrgðarmikil störf lögreglumanna.

Björn sagði að þótt ávallt sé leiðinlegt að geta ekki greitt götu þess, sem leitar eftir aðstoð, sé hitt fagnaðarefni fyrir þá, sem eiga öryggi sitt undir því, að lögreglan sé vel mönnuð, að margir séu um hvert sæti í Lögregluskólanum. Það sýni að minnsta kosti tvennt, að skólinn njóti vinsælda og það þyki eftirsóknarvert að komast til starfa í lögreglunni.

Dómsmálaráðherra sagðist í ræðu sinni þeirrar skoðunar, að lögreglustjórar eigi að leitast við að veita lögreglumönnum, sem vilja leggja stund á meira nám eða sérhæfingu, svigrúm til þess. Í því sambandi sé meðal annars nauðsynlegt að leggja rækt við alþjóðlegt samstarf og skapa tengsl við lögreglusveitir í öðrum löndum. Alþjóðleg, skipulögð glæpastarfsemi teygi anga sína hingað, traust milli lögregluliða í ólíkum löndum sé öflugur þáttur í baráttu við slíka glæpahringi.

Undir lok ræðu sinnar sagði dómsmálaráðherra að í upphafi næsta árs sé stefnt að því að skipaður verði starfshópur til að leggja lokahönd á nýskipan lögreglunámsins. Markmið breytinga á skólanum hafi verið kynntar dómsmálaráðuneytinu – eitt þeirra sé, að styrkja það viðhorf innan lögreglunnar, að lögreglunámi sé aldrei lokið heldur verði lögreglumenn ávallt, að eigin frumkvæði, að hafa metnað til að endurskoða þekkingu sína og bæta við hana.

Ræðu dómsmálaráðherra er að finna í heild sinni á heimasíðu hans, http://www.bjorn.is/.

Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náði Kári Erlingsson en hann fékk meðaleinkunnina 9,03. Í næstu sætum þar á eftir voru Ásmundur Jónsson með meðaleinkunnina 8,67 og María Pálsdóttir með meðaleinkunnina 8,58. Meðaleinkunn allra nemendanna var 7,97.

Dómsmálaráðherra afhenti Kára Erlingssyni sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku.

Þeir lögreglufulltrúar sem starfa við Lögregluskólann völdu úr hópi nemenda “Lögreglumann skólans” og varð Jóhann Björn Skúlason fyrir valinu.

Við athöfnina talaði Ólafur Hauksson, lögreglustjóri á Akranesi, til nemendanna og brýndi m.a. fyrir þeim að sýna fyrirhyggju og yfirvegun í lögreglustarfinu. Gunnsteinn Rúnar Sigfússon hélt við athöfnina ræðu fyrir hönd útskriftarhópsins og Lögreglukór Reykjavíkur söng tvö lög.

Þeir 35 nemendur sem voru brautskráðir að þessu sinni hafa lokið grunnnámi frá Lögregluskóla ríkisins og öðlast þekkingu til að takast á við öll almenn löggæslustörf. Þeir geta nú sótt um þær fjölmörgu lausu stöður lögreglumanna sem í boði eru og, eins og fram kom í ræðu dómsmálaráðherra, þarf hinn glæsilegi nemendahópur ekki að óttast verkefnaskort.