12 Desember 2006 12:00

Föstudaginn 8. desember 2006 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju. Að þessu sinni voru brautskráðir 35 nemendur sem hófu nám við skólann í janúarbyrjun 2006. 7 konur voru í hópum eða 20%.

Við athöfnina héldu ræður þau Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, Stefán Eiríksson, nýr lögreglustjóri og Víðir Reynisson, sem hélt ræðu fyrir hönd útskriftarhópsins. Lögreglukór Reykjavíkur söng tvö lög við athöfnina.

Arnar Guðmundsson, skólastjóri, sagði m.a. í ræðu sinni að góðir lögreglumenn væru mikils virði fyrir samfélagið, eins og raunar aðrir fagmenn sem eru sérlærðir til einhvers verks og starfa. Fagmenn þurfi almennt að ljúka grunnnámi í sinni grein og læra til verka og flestum gefist jafnan kostur á að mennta sig frekar í sínu fagi. Þannig væri það einnig í lögreglunni; grunnprófið sé forsenda vinnu í lögreglunni og það sé lykillinn að frekara námi lögreglumanna við framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins. Arnar sagði að þegar talað væri um lögreglunám væri í raun átt við viðfangsefni sem lögreglumenn þurfa að takast á við bróðurpartinn af starfsævinni.

Arnar lagði áherslu á að lögreglustarfið væri skemmtilegt og þroskandi, en á margan hátt erfitt og á stundum gæti það verið hættulegt. Hann sagði að við byggjum í samfélagi sem hefur tekið örum breytingum á skömmum tíma, í almennri umræðu í samfélaginu væri talað um agaleysi, frekju, yfirgang, og virðingarleysi, einnig aukið ofbeldi og skelfilegar afleiðingar vegna notkunar ólöglegra fíkniefna og ekki mætti gleyma glannalegum akstri óábyrgra.

Arnar gat þess sérstaklega að í sumar gerði Lögregluskóli ríkisins, með atbeina Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, samkomulag við CEPOL, sem stendur fyrir ,,Evrópska lögregluskólastarfið” og er samtök lögregluskóla allra ESB-landanna. Á vegum CEPOL séu haldin námskeið, ráðstefnur og sameiginlegar þjálfunaræfingar fyrir lögreglumenn til að auka þekkingu á evrópskum löggæslukerfum,  samstarfssamningum og samstarfsháttum og til þess að efla virkni og viðnám lögregluliða í baráttu gegn alvarlegum afbrotum, að efla landamæravörslu, að reyna að koma í veg fyrir hryðjuverk og mansal og að vinna gegn straumi ólöglegra innflytjenda.

Arnar sagði að tilgangur samkomulags CEPOL og Lögregluskóla ríkisins væri að skilgreina tengsl þarna á milli og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að auðvelda samvinnu. Hann sagðist binda vonir við að þetta samkomulag komi lögreglunni að gagni í framtíðinni; það gefi meiri möguleika en verið hefur á þátttöku íslenskra lögreglumanna í starfseminni sem er á vegum CEPOL, auk þess sem Lögregluskóli ríkisins geti komið að framkvæmd námskeiða á vegum CEPOL með öðrum skólum.

Í ræðu sinni sagði Arnar að almenningur bæri almennt mikið traust til lögreglunnar, það sýndu kannanir sem gerðar væru ár eftir ár. Hann nefndi að þeir sem starfa innan lögreglunnar viti að þar eigi sér stað gott starf og jákvæð þróun sem byggir á leiðarljósi yfirvalda lögreglumála.Góða lögreglusveit sé hægt að byggja upp þar sem er fagmennska, agi og samvinna. Hann hvatti nýliða til að leggja sig fram um að aðlagast þar sem þeir hæfu vinnu að loknu grunnnámi, allir hlekkirnir þyrftu að vera sterkir og halda.

Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, flutti ræðu við athöfnina í fjarveru Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra sem staddur var erlendis. Þórunn færði útskriftarnemendum bestu kveðjur og heillaóskir frá ráðherra í tilefni af þeim áfanga sem þeir væru nú að ná. Fyrir hans hönd óskaði hún einnig Lögregluskóla ríkisins, kennurum og starfsfólki til hamingju með daginn.

Í ræðu sinni sagði Þórunn m.a. að góð grunn- og framhaldsmenntun lögreglumanna væri mikilvægur liður í að tryggja öfluga löggæslu og traust til lögreglunnar. Hin mikla reynsla og þekking innan skólans þurfi að nýtast sem flestum sem sinna öryggis- björgunar- og gæslustörfum á vegum dómsmálaráðuneytisins og skólinn þurfi að vera viðbúinn því að takast á við ný úrlausnarefni og breyttar aðstæður sem lögreglan þarf að glíma við á hverjum tíma. Lögregluskóli ríkisins sé og eigi að vera mikilvægur og nauðsynlegur hlekkur í heildarskipulagi löggæslu- og öryggismála á hverjum tíma.

Þórunn nefndi einnig að lögreglustarfið sé mjög vandasamt starf og það sé mikils metið meðal borgarana. Virðing fyrir störfum lögreglunnar spretti ekki af sjálfu sér, heldur eigi hún rætur að rekja til þess, að menn vinna störf sín af alúð og árvekni. Þórunn sagði að almenningur og stjórnvöld geri miklar kröfur til lögreglumanna og þeirra starfa. Krafan sé sú að lögreglan sinni öllum störfum sínum vel og í samræmi við þarfir og þróun samfélagsins á hverjum tíma. Lögreglan eigi því að vera skilvirk og árangur af störfum hennar vera mikill, hún eigi að vera opin og jákvæð gagnvart öllum hugsanlegum óskum og þörfum borgaranna, vera sýnileg í störfum sínum og umfram allt tryggja öryggi almennings og stjórnvalda.

Í lok ræðu sinnar óskaði Þórunn þess að gæfan fylgdi útskriftarnemendunum í mikilvægum störfum þeirra og að framganga þeirra yrði til að efla virðingu lögreglunnar meðal íslensku þjóðarinnar.

Stefán Eiríksson, nýr lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hélt ræðu við brautskráninguna. Hann sagði m.a. í ræðu sinni að mörg þeirra sem nú væru að útskrifast muni koma til liðs við hið nýja lögregluembætti sem verður til um næstu áramót með sameiningu þeirra þriggja lögregluliða sem þar starfa í dag. Stefán sagði þau öll koma til með að leggja sitt af mörkum í því uppbyggingar- og mótunarstarfi sem framundan væri, því nýtt embætti yrði ekki til á einni nóttu. Framundan væri mikið en skemmtilegt mótunarstarf þar sem höfuðáhersla yrði lögð á að virkja alla starfsmenn embættisins til þátttöku.

Stefán sagði að meginmarkmið stjórnenda embættisins, að auka öryggi og öryggistilfinningu fólks, væri ekki einkamál lögreglunnar, það væri heldur ekki einkamál stjórnenda embættis að móta og þróa starfsemi þess og áherslur. Það væri í höndum allra starfsmanna að taka þátt í því og leggja sitt af mörkum í þeim efnum.

Í lok ræðu sinnar gerði Stefán að umtalsefni fáein grundvallaratriði sem gott væri að hafa í huga og hefðu reynst honum vel í gegnum tíðina. Þessi atriði væri frumkvæði, metnaður, samvinna, ábyrgð og síðast en ekki síst heiðarleiki. Stefán sagði að af þessum atriðum skipti heiðarleiki höfuðmáli. Ef hann væri ekki með í farteskinu þá væru frumkvæði, metnaður, samvinna og ábyrgð einskis virði.

Að lokum sagði Stefán að þó svo að frumkvæði, metnaður, samvinna, ábyrgð og heiðarleiki skipti miklu máli þá skipti líka miklu máli að hafa gaman af lífinu. Dagurinn í dag væri gleðidagur í lífi útskriftarnemendanna og vonandi um leið upphafið að farsælum ferli þeirra innan íslensku lögreglunnar.

Víðir Reynisson, sem hélt ræðu fyrir hönd nemendahópsins, sagði m.a. að eitt það fyrsta sem nemendur hefðu lært í skólanum hefði verið að klæða sig, að ganga hefði komið fljótlega og síðar að tala. Víðir sagði að þetta hljómi e.t.v. einkennilega fyrir þá sem ekki til þekkja en þetta væri engu að síður nauðsynlegur þáttur í þjálfun lögreglumannsins. Hann þurfi að vera reffilegur, vel talandi og virðulegur fulltrúi hins opinbera.

Víðir rakti síðan hvernig námið hefði þróast úr bóklegri kennslu yfir í verklegar æfingar, þaðan yfir í starfsþjálfun og loks nám á þriðju önn þar sem meiri ábyrgð væri lögð á herðar nemenda að vinna sjálfstætt.

Víðir sagði að nú bættist góður hópur í raðir lögreglunnar á Íslandi. Þessi hópur viti að til hans séu gerðar miklar kröfur, bæði af stjórnendum í lögreglunni en ekki síður af almenningi í landinu, sem á erfiðustu stundum í lífi þeirra treystir á að til aðstoðar komi vel þjálfaðir lögreglumenn.

Að lokum sagði Víðir að nú væru ekki lok lögreglunámsins, þrátt fyrir brautskráningu, námið vari svo lengi sem menn starfa við löggæslu. Hann sagði nemendahópinn treysta á stjórnvöld til að byggja enn frekar undir grunn og framhaldsmenntun lögreglumanna og búa með þeim hætti að Lögregluskóla ríkisins að hann geti verið fyrir komandi nemendur sá viskubrunnur sem hann hefur verið hans árgangi. Með þessum orðum þakkaði Víðir, fyrir hönd samnemenda sinna, öllu starfsfólki Lögregluskóla ríkisins innilega fyrir góðar stundir á námstímanum og sagði hópurinn horfði björtum augum á frekari samskipti á komandi árum.

Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náðu þeir Guðmundur Halldórsson og Stefán Sveinsson en þeir fengu meðaleinkunnina 9,03. Í næstu sætum þar á eftir voru Ágúst Sigurjónsson og Róbert Þór Guðmundsson með meðaleinkunnina 8,88 og Brynhildur Björnsdóttir með meðaleinkunnina 8,82. Allir þessir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn allra nemendanna var 8,04 sem verður að teljast mjög gott.

Þórunn J. Hafstein afhenti Ágúst Sigurjónssyni, Ágústu Ringsted og Brynhildi Björnsdóttur sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku á lokaprófi. Viðurkenningin er annars vegar farandbikar, sem gefinn var af dóms- og kirkjumálaráðherra, og hins vegar bókarverðlaun sem gefin eru af Landssambandi lögreglumanna.

Þeir lögreglufulltrúar sem starfa við Lögregluskóla ríkisins völdu úr hópi nemenda “Lögreglumann skólans” og varð Stefán Sveinsson fyrir valinu að þessu sinni.

Þeir nemendur sem voru brautskráðir að þessu sinni hafa lokið almennu grunnnámi frá Lögregluskóla ríkisins og öðlast þekkingu til að takast á við öll almenn löggæslustörf, hvar sem er á landinu.