20 Apríl 2008 12:00

Föstudaginn 18. apríl 2008 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju. Brautskráðir voru 45 nemendur sem hófu nám við skólann þann 16. janúar 2007. 11 konur voru í hópum eða 24,4%.

Við athöfnina fluttu ávörp þau Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Sveinn Ingiberg Magnússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn og Antonía Hermannsdóttir, sem talaði fyrir hönd útskriftarhópsins. Lögreglukór Reykjavíkur söng tvö lög við athöfnina.

Arnar Guðmundsson, skólastjóri, greindi í upphafi ávarps síns frá langtímaáætlun fyrir Lögregluskóla ríkisins 2007 – 2011 sem staðfest hefur verið af dómsmálaráðuneytinu. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir því að á tímabilinu verði brautskráðir samtals 250 nemendur frá skólanum. Þessu takmarki er ætlað að ná með því að taka við nýnemum tvisvar á hverju ári, í byrjun janúar og í september. Þrjár 16 manna bekkjardeildir verða þá ávallt samtímis við bóklegt nám í skólanum og gangi það eftir, verða 48 nemar á hverju ári í starfsþjálfun í lögregluliðum yfir sumarmánuðina, maí til ágúst.

Arnar sagði að í samræmi við áætlun skólans hafi nú verið auglýst um inntöku nýnema í skólann á haustönn 2008 og vorönn 2009 og að við val lögreglumannsefna sem er framundan verði stuðst við sálfræðipróf, sem ekki hefur verið áður. Þessi próf hafa verið notuð víða um heim og eru almennt talin áreiðanleg og réttmæt í matsferli við val á lögreglumönnum.

Þá greindi Arnar frá því að íslenska lögreglan ætti í ágætu samstarf á ýmsum sviðum við systurstofnanir erlendis og samstarf Lögregluskóla ríkisins við Norrænar lögreglumenntastofnanir væri einnig með ágætum. Lögregluskóli ríkisins hefði, með atbeina dómsmálaráðherra, gert samvinnusamkomulag í júní 2006 við samtök lögregluskóla Evrópusambandslandanna, CEPOL. Samkomulagið væri virkt og hefði gagnast ágætlega til þessa, starfsmenn íslensku lögreglunnar hefðu verið sendir á námskeið sem haldin hefðu verið við ýmsa lögregluskóla í Evrópulöndum og vilji væri til þess, af hálfu Lögregluskóla ríkisins, að leita leiða til að fylgja betur eftir þessu samstarfi.

Arnar gat þess að Lögregluskóli ríkisins hefði s.l. haust verið meðskipuleggjandi, ásamt lögregluskólum í Svíþjóð og Finnlandi, að CEPOL-námskeiði um þróun afbrota og hefði námskeiðið verið byggt á skýrslu Evrópusambandsins um varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Námskeiðið hefði verið haldið hér á landi, tekist vel og óskað hafi verið eftir því að þetta verði endurtekið í haust.

Arnar sagði að í Lögregluskóla ríkisins væri stöðugt verið að þróa almennt lögreglunám til fullkomnunar og að á þeirri önn sem nú væri að ljúka hefðu verið gerðar nokkrar breytingar sem vonandi yrðu til bóta, aukin verkefnavinna nemenda, æfingar og úrlausnir raunhæfra dæma undir handleiðslu kennara. Arnar sagði að unnið hefði verið að slíkum breytingum í nokkurn tíma, tækifæri hefði gefist til að hrinda þessu í framkvæmd, m.a. með nýjum kennurum og breyttum áherslum í verkaskiptingu milli þeirra.

Arnar lagði áherslu á að mannauðurinn væri dýrmætur í Lögregluskóla ríkisins og mikil verðmæti fælust í hugviti, þekkingu og reynslu starfsmanna skólans. Hann hefði, sem stjórnandi, smám saman aukið sjálfsforræði þeirra í samræmi við færni, áhuga og aukna reynslu hvers og eins. Á sama tíma hefðu verkefni og vinnuaðstæður í skólastarfinu þróast og skipast þannig að það hafi kallað á að nýta til fulls þann kraft sem í starfsmönnunum býr. Arnar sagði að það væri þekkt að þeir sem fá að ráða sér hæfilega mikið sjálfir fyndu oft fyrir vissri sigurtilfinningu og tækju krefjandi verkefnum fagnandi, hann hefði oft upplifað þetta hjá starfsmönnum skólans, þó hann hafi ekki haft hátt um það.

Styrkur Lögregluskóla ríkisins, sagði Arnar, felst einnig í því, að hann á því láni að fagna að margir vilja vinna með skólanum. Til liðs væri fengið gott fagfólk úr starfsstéttum lögreglunnar, sem auðveldaði alla tengingu náms og þjálfunar við hið daglega starf lögreglu. Þetta væri allt fólk, sem hefði gott til málanna að leggja, væri áhugasamt í sínu starfi og skynjaði mikilvægi þess að fá að vinna með menntastofnun lögreglunnar. Yfirmenn lögreglunnar gerðu skólanum kleift að skapa tengsl við þeirra fagfólk í sérhæfðum störfum og án þessara tengsla við hina starfandi lögreglu hefði skólinn tæplega náð þeim árangri sem raun væri.

Arnar sagði frá tveimur nýjum námsgreinum sem voru kenndar á önninni sem er að líða, Samfélagsfræði, þar sem markmiðið var að nemendur öðlist grunnþekkingu á Evrópu- og alþjóðasamstarfi á sviði löggæslu með sérstaka áherslu á samstarf við Europol og Interpol auk Schengen samstarfsins og hins vegar Félagsvísindi, sem kemur í stað almennu sálfræðikennslunnar og skiptist í tvo hluta, hagnýta lögreglusálfræði og hagnýta afbrotafræði.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði m.a. í ávarpi sínu að traust almennings í garð lögreglunnar byggist á heildarmyndinni sem við þjóðinni blasir og þetta traust sé óvenjumikið um þessar mundir. Hann sagði nemendur því ganga til liðs við mikils metinn hóp karla og kvenna, sem leggi ómetanlegt starf af mörkum til að tryggja öryggi samborgara sinna. Björn sagði einnig að virðing fyrir störfum lögreglunnar spretti ekki af sjálfu sér, heldur eigi rætur að rekja til þess að lögreglumenn vinna störf sín af alúð og árvekni.

Björn minnti á breytingar sem urðu á skipulagi lögreglunnar þann 1. janúar 2007 og greindi frá áfangaskýrslu sem hefur verið skilað til hans varðandi mat á því hvernig staðið var að þessum breytingum. Ábendingar sem kæmu fram í skýrslunni væru allar þess eðlis að ástæða sé að taka þær til alvarlegrar umræðu. Þar væri m.a. bent á nauðsyn þess að endurskoða lögreglulögin og inntak lögreglustarfsins, stækka lögregluumdæmi enn frekar og skipa ekki aðeins lögfræðinga sem lögreglustjóra.

Björn sagðist hafa fullan hug á að fylgja þessum hugmyndum eftir með umræðum og síðan aðgerðum. Skoraði hann á nemendahópinn, sem nýja lögreglumenn en einnig á þá sem eldri eru og búa yfir mikilli reynslu, að segja álit sitt á tillögum í skýrslunni.

Björn greindi einnig frá starfsemi nefndar sem hann skipaði til að gera tillögur um uppbyggingu alhliða löggæslu- og öryggismálaskóla en nefndin átti einnig að huga að þeim kosti að starfsemi skólans færi fram í Keflavíkurstöðinni, enda væri þar húsnæði og nauðsynlegur aðbúnaður.

Í nefndinni hafa setið fulltrúar lögreglumanna, fangavarða, starfsmanna landhelgisgæslu og tollvarða auk forstöðumanns starfsgreinaskóla á flugvallarsvæðinu við Keflavík. Björn sagði val nefndarmanna endurspegla það svið sem skólanum var ætlað að spanna en nú væri ljóst að ekki væri áhugi hjá tollstjórninni að standa að þessum skóla.

Björn sagðist hafa óskað eftir því við formann nefndarinnar, Ólaf K. Ólafsson, sýslumann Snæfellinga, að nefndin haldi áfram störfum og einbeiti sér að námi starfsmanna í stofnunum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Staðarvalið verði áfram til umræðu en stjórnendur lögregluskólans telji hann best settan í Reykjavík.

Björn tók fram að samstarf hans við skólastjóra og aðra starfsmenn Lögregluskóla ríkisins hafi verið með ágætum og vildi hann þakka hina metnaðarfullu langtímaáætlun um skólann. Þá hafi einnig verið ánægjulegt að fylgjast með því hve skipulega skólinn hafi tengst samstarfi evrópskra lögregluskóla. Björn sagðist, ekki síður en nemendur skólans, sækja góð ráð til þeirra sem skólanum stjórna og miklu skipti að skólinn sé í lifandi tengslum við allt lögreglustarf í landinu.

Í lok ávarps síns bauð Björn hina nýju lögreglumenn velkomna til starfa með því að minna á að þeir væru ekki að koma inn í staðnað umhverfi, heldur á starfsvettvang þar sem miklar breytingar væru á döfinni, ekki breytinganna vegna heldur í því skyni að gera góða hluti betur.

Ávarp dómsmálaráðherra í heild sinni og fréttatilkynningu varðandi áfangaskýrslu um mat á breytingum á nýskipan lögreglu er að finna á vef dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, http://www.domsmalaraduneyti.is/.

Sveinn Ingiberg Magnússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn og fráfarandi formaður Landssambands lögreglumanna, benti á hve mikill fjölbreytileiki væri fólginn í lögreglustarfinu, störfin væru margbreytileg og spennandi og sem betur fer hefði lögreglan haft mikið aðdráttarafl eins og sjá mætti á þeim fjölda fólks sem sækir í skólann á hverju ári. Það væri líka ánægjulegt að sjá hve breiður hópur hefur sótt í lögregluna síðustu ár. Hann sagði að í lögreglunni gætu allir fundið sér vettvang við hæfi, hvort sem það væri við almenn lögreglustörf, umferðarlöggæslu, hverfa- og forvarnalöggæslu, rannsóknir sakamála, alþjóðasamskipti, sérsveit, almannavarnir eða í þjálfun lögregluhunda. Lögreglan ynni með fólki og samskipti við borgarann væri rauði þráðurinn í gegnum starfið.

Sveinn sagði að lykilatriðið fyrir lögreglumenn væri fagleg framkoma og að temja sér alltaf fagleg vinnubrögð, bera virðingu fyrir starfinu, bera virðingu fyrir þeim verkefnum sem lögreglunni væru falin og að halda virðingu sinni sama hversu erfiðar aðstæðurnar væru. Það auðveldaði störfin – það auðveldaði samskipti lögreglunnar við borgarana.

Sveinn sagði að verið væri að innleiða félagastuðning, handleiðslu og faglega ráðgjöf fyrir lögreglumenn og hvatti nemendur til að nýta sér þessa aðstoð. Ekki mætti byrgja inni endurupplifun af erfiðum málum eða hugsanlegum áföllum, lögreglumenn væru ekki úr stáli. Hann taldi víst að flestir lögreglumenn hafi upplifað það einhvern tíma að sitja heima, þögulir, áhugalausir og annars hugar. Þetta væri vísbending til aðstandenda lögreglumanna og beindi orðum sínum til þeirra. Hugsanlega væri eitthvað að brenna á viðkomandi lögreglumanni, eitthvað sem truflaði og því þyrfti að ræða hlutina og vinna úr þeim.

Að lokum hvatti Sveinn nemendur til að tileinka sér það sem þeir hefðu lært í náminu og þeim væru þá allir vegir færir.

Antonía Hermannsdóttir rakti hvernig námstíminn hefði þróast frá því að hópurinn mætti fyrsta skóladaginn, þegar flestir voru með hnút í maganum en samt galvaskir og orkumiklir, tilbúnir til leiks. Antonía sagði frá ýmsum eftirminnilegum og skemmtilegum atvikum á tímabilinu, m.a. hvaða skilning einn nemendanna leggur í orðatiltækið að „hella uppá“.

Antonía sagði að þegar litið væri til baka og horft er á námið í heild sinni væri ekki hægt að segja annað en að námið hefði verið bæði krefjandi og skemmtilegt. Kennararnir hefðu lagt sig mikið fram við að koma námsefninu til skila og tekist það með árangursríkum hætti og því mætti með sanni segja að nú væru að útskrifast lögreglumenn sem hlotið hefðu góða kennslu og þjálfun hjá metnaðarfullum kennurum.

Undir lok ávarpsins tilkynnti Antonía að nemendahópurinn hefði ákveðið að veita besta kennara skólans viðurkenningu. Kennarinn sem hlyti þennan heiður hefði náð mjög vel til hópsins og komið námsefninu þannig til skila að nemendur hefðu varla þurft að líta í bók fyrir próf, námsefnið hefði hreinlega komist allt til skila í kennslustundum. Þorleifur Njáll Ingólfsson, lögreglufulltrúi, var að mati nemenda besti kennarinn og afhenti Antonía honum sérstaka viðurkenningu frá nemendunum af því tilefni.

Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náðu þau Antonía Hermannsdóttir og Garðar Axelsson en þau fengu meðaleinkunnina 9,12. Þar á eftir kom Óli Ásgeir Hermannsson sem fékk meðaleinkunnina 9,09. Allir þessir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn allra útskriftarnemendanna var 8,10 sem er mjög gott.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, afhenti Þorsteini M. Kristinssyni sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku en hann fékk einkunnina 10,0 á báðum bóknámsönnum skólans. Viðurkenningin er annars vegar farandbikar, sem gefinn var af dómsmálaráðherra, og hins vegar bókarverðlaun sem gefin eru af Landssambandi lögreglumanna.

Lögreglufulltrúarnir sem starfa við Lögregluskóla ríkisins völdu úr hópi nemenda tvo þeirra sem “Lögreglumenn skólans” og urðu Óli Ásgeir Hermannsson og Róbert Freyr Gunnarsson fyrir valinu.

Það sem lagt er til grundvallar vali á lögreglumanni skólans er að hann geti orðið fyrirmynd annarra lögreglumanna vegna þess að hann sé jákvæður, traustvekjandi og í góðu andlegu jafnvægi; kurteis, þolinmóður, heiðarlegur, samviskusamur og metnaðargjarn; vel á sig kominn líkamlega; hafi góða faglega þekkingu og síðast en ekki síst að hann eigi auðvelt með mannleg samskipti.

Árni Sigmundsson, deildarstjóri grunnnámsdeildar, afhenti Óla Ásgeiri og Róbert Frey viðurkenninguna og talaði við það tækifæri til allra nemendanna. Hann sagði þá hafa alla burði til að verða góðir lögreglumenn og brýndi fyrir þeim að vera jákvæða og lífsglaða og koma vel fram við þá sem þeir hefðu afskipti af í lögreglustarfinu. Þeir ættu ætíð að koma fram af kurteisi og sýna aldrei nokkrum manni hroka eða lítilsvirðingu.

Í lok brautskráningarinnar talaði Arnar Guðmundsson, skólastjóri, til nemendanna, sagði lögreglustarfið vera skemmtilegt og þroskandi starf en á margan hátt erfitt og gæti stundum verið hættulegt. Hann sagði góða lögreglusveit vera byggða upp á jákvæðni, hæfilegum aga og samvinnu og nemendur vissu hvað prýðir góðan lögreglumann. Að lokum hvatti hann nemendur til að njóta lögreglumenntunarinnar, vonaði að þeir kæmu til með að hafa ánægju af lögreglustarfinu, brýndi fyrir þeim að standa sig vel og gera sitt til að tryggja áfram traust á lögreglunni.

Nemendurnir sem voru brautskráðir að þessu sinni hafa lokið almennu grunnnámi frá Lögregluskóla ríkisins og öðlast færni til að takast á við öll almenn löggæslustörf, hvar sem er á landinu.

Nokkrar ljósmyndir frá athöfninni er að finna hér til hliðar, undir Lögregluskóli ríkisins – Myndasafn.

Nemendahópurinn sem var brautskráður þann 18. apríl 2008