18 Desember 2008 12:00

Föstudaginn 12. desember 2008 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju. Brautskráðir voru 32 nemendur sem hófu nám við skólann þann 4. september 2007. 7 konur voru brautskráðar eða 21,8% hópsins.

Auk þeirra sem voru brautskráðir var í nemendahópnum einn nemandi, kona sem náði ekki að ljúka öllum prófum vegna þess að hún er barnshafandi. Hún mun þreyta prófin um leið og hún hefur tækifæri á því.

Við athöfnina fluttu ávörp Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna og Guðlaugur Freyr Jónsson, sem talaði fyrir hönd útskriftarhópsins. Lögreglukór Reykjavíkur söng tvö lög við athöfnina og Hermundur Guðsteinsson, einn nemendanna, söng tvö lög.

Arnar Guðmundsson, skólastjóri, sagði þetta ár einstakt í 40 ára sögu lögreglumenntunar á Íslandi því 45 nemendur hefðu verið brautskráðir frá skólanum í apríl s.l. og að viðbættum þeim 32 sem nú væri verið að brautskrá yrðu samtals 77 nemendur brautskráðir á árinu.

Arnar sagði að 15 nemendur væru nú um það bil að ljúka námi á fyrstu önn grunnnáms og búið væri að velja 31 nemanda til að hefja nám á fyrstu önn í janúarbyrjun 2009. Hann sagði að mikið álag hefði verið á alla starfsmenn skólans á þessari haustönn og þakkaði þeim sérstaklega fyrir áhuga og dugnað.

Arnar fór í stuttu máli yfir alþjóðlegt samstarf Lögregluskóla ríkisins, hvort sem er við norrænar lögreglumenntastofnanir eða Evrópska lögregluskólann, CEPOL.

Varðandi starfsemi framhaldsdeildar Lögregluskóla ríkisins nefndi Arnar sérstaklega námskeið um akstur með forgangi en skólinn mun leiða sérstakt átak á því sviði. Á næstu misserum er gert ráð fyrir að þjálfa 300 – 350 lögreglumenn í forgangsakstri, Arnar sagði miklar vonir bundnar við þetta átak sem yrði í framtíðinni hluti af almennu grunnnámi skólans.

Í ræðu sinni minnti Arnar nemendur á að lögreglustarfið væri erfitt, lögreglumenn þyrftu að búa yfir hugrekki og ráðkænsku; hafa stjórn á sér og vera heiðarlegir. Hann sagði að í störfum sínum opinberuðu lögreglumenn persónuleika sinn og manngerð og það væru góðir eðliskostir lögreglumanna að vera prúðmenni.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði m.a. í ræðu sinni að það færi ekki fram hjá neinum að um þessar mundir væri eindregið hvatt til mikils aðhalds í opinberum rekstri og að öllum tiltækum ráðum skuli beitt til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs.

Björn sagði að á Alþingi væri einmitt þennan dag verið að undirbúa aðra umræðu fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár, sem ætlunin væri að lögfesta í næstu viku. Í gær hefði forsætisráðherra lýst yfir að leitast yrði við að standa vörð um grunnþætti í rekstri ríkisins, það er heilbrigðisþjónustu, skólastarf og löggæslu.

Björn sagði það verða sameiginlegt verkefni allra þeirra sem koma að því að halda uppi lögum og rétti, að tryggja sem best öfluga löggæslu við gjörbreyttar og erfiðar aðstæður í ríkisfjármálum.

Í lok ræðu sinnar sagði Björn að breytingatími væri tími nýrra tækifæra, ekki ætti að óttast breytingar heldur nýta þær. Áraun og erfiði gæti bæði styrkt og brotið. Hann hvatti nemendur til að líta björtum augum til framtíðar og sækja styrk í grunngildi starfs lögreglumannsins: heiðarleika, einurð og ósérhlífni.

Ávarp dómsmálaráðherra í heild sinni er að finna á vef dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, http://www.domsmalaraduneyti.is/.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, sagði m.a. í ræðu sinni að það væri sérlega ánægjulegt að standa hér í dag, frammi fyrir svo stórum og breiðum hópi nýútskrifaðra lögreglumanna. Þeirra hefði verið beðið með óþreyju af starfandi lögreglumönnum og þeirra biði ærið verk í þeim lögregluliðum sem þeir færu til starfa við.

Snorri sagði það afar ánægjuleg tíðindi að sjá það í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu í gær, að ríkisstjórn Íslands ætlaði sér, með þeim efnahagsaðgerðum sem óhjákvæmilegar væru í þeim þrengingum sem blasa við, að standa sérstakan vörð um velferð, menntun og síðast en alls ekki síst, löggæslu.

Við nemendahópinn sagði Snorri að lögreglustarfið muni gefa þeim gríðarlega mikið, nýja sýn á lífið og tilveruna, nýja sýn á manninn, veröld hans og samskipti hans í milli. Mikilvægast af öllu væri þó að starfið muni gefa þeim hóp nýrra félaga og vina í þeim lögreglumönnum sem þegar eru við störf um allt land.

Guðlaugur Freyr Jónsson, fulltrúi nemenda, fór yfir námstímann og ræddi bæði um samnemendur og kennara. Hann sagði að kennarar skólans hefðu ekki einungis verið fyrirmyndir, nemendur litu á þá sem vini og félaga.

Guðlaugur sagði að nemendur hefðu fundið það allan námstímann að metnaðurinn í starfsliðinu, áhuginn og krafturinn sem var lagður í að kenna nemendunum hefði verið ómældur. Það hefðu nemendur fundið glöggt og liðið vel í skólanum. Hann sagðist vera nokkuð viss um að nemendur héldu áfram að heimsækja skólann til að hitta kennarana og finna þann góða anda sem ríkir í skólanum.

Í þakklætisskyni afhentu nemendur öllu starfsfólki skólans ljósmynd af nemendahópnum. Á myndina er áritað „Takk fyrir skólann, hann var góður“.

Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náði Einar Sigurjónsson með meðaleinkunnina 9,27, í öðru sæti varð Ingvaldur Magni Hafsteinsson með meðaleinkunnina 9,07 og í þriðja sæti varð Hermundur Guðsteinsson með meðaleinkunnina 8,93. Allir þessir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn allra útskriftarnemendanna var 8,10 sem er mjög gott.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, afhenti Guðlaugi Frey Jónssyni, Hermundi Guðsteinssyni og Ingvaldi Magna Hafsteinssyni sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku. Viðurkenningin er annars vegar farandbikar, sem gefinn var af dómsmálaráðherra, og hins vegar bókarverðlaun sem gefin eru af Landssambandi lögreglumanna.

Lögreglufulltrúarnir sem starfa við Lögregluskóla ríkisins völdu úr hópi nemenda “Lögreglumann skólans” og var Sigurður Kári Guðnason fyrir valinu.

Árni Sigmundsson, deildarstjóri grunnnámsdeildar skólans, afhenti Sigurði Kára viðurkenningu og sagði við það tækifæri að nú væri dimmt yfir, ekki einungis vegna þess hve dagurinn væri stuttur heldur einnig vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Því brýndi hann sérstaklega fyrir nemendum að vera jákvæðir, bjartsýnir og lífsglaðir en sogast ekki inn í hringiðu neikvæðni og svartnættis.

Í lok brautskráningarinnar talaði Arnar Guðmundsson, skólastjóri, beint til nemendanna. Hann ítrekaði að starf í lögreglu væri oft erfitt og lögreglu ögrað og því þyrftu lögreglumenn að temja sér eiginleika eins og aga, hugrekki og ráðkænsku og að lögreglan þyrfti að hafa stjórn á sér, vera rólynd, heiðarleg, vingjarnleg og kurteis.

Að lokum þakkaði Arnar, fyrir hönd allra starfsmanna Lögregluskóla ríkisins, nemendunum samfylgdina, óskaði þeim velfarnaðar og alls góðs. Hann sagðist vonast til þess að þeir færu allir til starfa í lögreglu ríkisins, annað væri sóun.

Nemendurnir sem voru brautskráðir að þessu sinni hafa lokið almennu grunnnámi frá Lögregluskóla ríkisins og öðlast færni til að takast á við öll almenn löggæslustörf, hvar sem er á landinu.

Nemendahópurinn, ljósmynd Júlíus Sigurjónsson

Nemendahópurinn, ljósmynd Júlíus Sigurjónsson