16 Desember 2009 12:00

Föstudaginn 11. desember 2009 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju. Brautskráðir voru 13 nemendur sem hófu nám við skólann þann 9. september 2008. Hlutfall kvenna í hópi brautskráðra var 30,8%.

Auk þeirra sem voru brautskráðir voru í nemendahópnum tveir nemendur sem ekki náðu tilskilinni lágmarkseinkunn í einni námsgrein og þurfa því að þreyta endurtökupróf.

Við athöfnina fluttu ávörp Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra, Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og Ívar Bjarki Magnússon, sem talaði fyrir hönd útskriftarhópsins. Lögreglukór Reykjavíkur söng tvö lög við athöfnina.

Arnar Guðmundsson, skólastjóri, sagði m.a. í ræðu sinni að það væri ákaflega mikilvægt að þeir sem starfa sem lögreglumenn hafi hlotið menntun og þjálfun til þeirra starfa. Hann sagði lögreglustarfið vissulega vera skemmtilegt og gefandi starf, en það væri krefjandi og gæti verið mjög erfitt, jafnvel hættulegt. Þess vegna þyrfti góðan undirbúning til að takast á við starfið.

Arnar nefndi í ræðu sinni nokkur þeirra atriða sem áhersla væri lögð á í almennu lögreglunámi. Lögreglumenn þyrftu að kunna að vera undir aga og að hafa stjórn á sjálfum sér; vera hugrakkir, ráðagóðir og vel á sig komnir líkamlega; vera búnir undir að takast á við óhöpp, slys og bráðaveikindi og einnig erfiðar tilfinningar sem þeir gætu upplifað í lögreglustarfinu; þeir þyrftu að kunna grunnatriði í rannsóknum sakamála og vera vissir um að meta rétt hvenær valdbeitingar væri þörf og hvernig hún skyldi framkvæmd.

Varðandi útskriftarhópinn sagði Arnar að í lok árs 2008 hefði blasað við að samdráttur yrði í ríkisútgjöldum og skólinn staðið frammi fyrir því að lögregluembættin gátu ekki tekið við nemendunum í átta mánaða starfsþjálfun frá og með janúarbyrjun 2009 eins og áætlað hafði verið. Á endanum var tekin sú ákvörðun að stytta starfsþjálfunina í fjóra mánuði og fór hún fram mánuðina janúar til apríl 2009.

Arnar sagði það vera ánægjulegt fyrir hann, sem skólastjóra, að geta þakkað nemendunum fyrir það hvernig þeir brugðust við þeim breyttu aðstæðum sem komu upp fyrir ári síðan. Viðhorf þeirra hafi ráðið mestu um það að hægt var að leysa úr málinu á viðunandi hátt og aðalatriðið væri að þeir hafi fengið tækifæri til að ljúka náminu, þrátt fyrir allt, á réttum tíma.

Hvað framtíðina varðaði sagði Arnar mjög nauðsynlegt að gera breytingar á fyrirkomulagi launagreiðslna til lögreglunema, næst þegar nýnemar verða teknir inn í skólann. Tryggja þurfi að allir sem valdir eru til að hefja launað lögreglunám fái tækifæri til að ljúka því í samræmi við væntingar í upphafi, væntingar sem byggja á ákveðnum forsendum.

Varðandi starfsemi framhaldsdeildar Lögregluskóla ríkisins nefndi Arnar að hún hefði verið öflug á árinu og eftirspurn eftir námskeiðum og aðsókn að þeim, hafi aukist. Mætingar á námskeið í framhaldsdeild voru samtals liðlega 1150 á 77 sérnámskeið og kennt var í deildinni í 211 daga á árinu.

Arnar sagði nokkur átaksverkefni hafa verið í gangi í framhaldsdeild skólans, nú væri lokið fyrsta ári af þriggja ára þjálfunarátaki í akstri með forgangi en samtals voru haldin 10 slík námskeið á árinu fyrir 116 þátttakendur.

Einnig nefndi Arnar námskeið varðandi nýja aðferðarfræði við yfirheyrslur, upptökur þeirra og framsetningu málsgagna í sakamálum og segja mætti að það væri annað átaksverkefni sem væri vel á veg komið.

Arnar sagði nauðsynlegt, við uppgjör skólastarfs, að þakka það sem vel væri gert. Hann þakkaði samstarfsmönnum sínum fyrir vel unnin störf; stjórnvöldum, lögregluembættum og einstaka starfsmönnum embættanna, sem hafa unnið með skólanum, styrkt hann og stutt; forsvarsmönnum Landssambands lögreglumanna; starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins auk þeirra sem sátu í formlegum og óformlegum nefndum og vinnuhópum sem störfuðu með skólanum á árinu.

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, óskaði hinum ungu lögreglumönnum innilega til hamingju með árangurinn. Hún hvatti þá til að horfa björtum augum fram á veginn og láta ekki á sig fá þótt nú væru erfiðari aðstæður í þjóðfélaginu en undanfarin ár. Erfitt væri að sætta sig við að hafa það ekki betra en kynslóðirnar á undan; að sætta sig við að stíga skref til baka. Hún sagði nauðsynlegt að nota þau skref til að efla og herða.

Ragna bað nemendurna að muna að þeir ættu eitt nú, sem ekki yrði frá þeim tekið, góða menntun. Eitt sinn hafi verið sagt að bókvitið yrði ekki í askana látið en nú efuðust fáir um að nám væri til góðs, bæði einstaklingnum sem það stundaði svo og samfélaginu í heild. Ragna sagðist vera mjög stolt af því námi, sem boðið væri upp á í Lögregluskóla ríkisins, þar væri valinn maður í hverju rúmi og skólinn hafi á sér afar gott orð.

Varðandi atvinnumöguleika nemendanna sagði Ragna að við ráðuneyti hennar blasi það úrlausnarefni að nota minnkandi fjárheimildir eins vel og framast sé unnt. Ráðuneytið hafi tekið þann pól í hæðina að best væri að stækka stofnanaeiningar innan löggæslunnar til þess að gera þeim betur kleift að mæta sparnaðarkröfum. Ráðuneytið vilji standa vörð um hina almennu löggæslu á kostnað yfirbyggingar og því væri nú hugað að skipulagsbreytingum á lögreglunni í landinu til þess að hún væri betur í stakk búin til að takast á við niðurskurð komandi ára.

Ragna sagði að lokum að hún hafi lýst þeirri sýn sinni að lögreglan þurfi fleiri almenna lögreglumenn og færri stjórnendur. Það sé mikil viðkvæmni fyrir öllum breytingum, það sé mannlegt og hún skildi það fullvel, en þegar þessi glæsilegi hópur útskriftarnemenda blasti við – hvort það væri þá ekki einsýnt að leggja frekar áherslu á að njóta starfskrafta hans en að standa vörð um skipulag og stjórnendafjölda.

Ávarp dómsmálaráðherra í heild sinni er að finna á vef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, http://www.domsmalaraduneyti.is/.

Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, lagði á það mikla áherslu við útskriftarnemendur að framkoma við fólk, viðhorf til fólks, virðing fyrir fólki og umhyggja fyrir öðru fólki væru lykilatriði í lögreglustarfinu, ekki bara gagnvart viðskiptavinum lögreglu, heldur líka vinnufélögunum og ekki síst sjálfum sér. Sá sem bæri ekki virðingu fyrir sjálfum sér og starfi sínu væri illa staddur. Hörður sagði bara eina leið til að ástunda þessa hegðun gagnvart öðru fólki og hún væri sú að taka þá ákvörðun í eitt skipti fyrir öll að koma fram við allt fólk af kurteisi og virðingu. Hann minnti nemendur á að þeir gætu ekki búist við því frá öðrum sem þeir sýndu ekki sjálfir.

Hörður sagði það hafa verið sagt að sumt sé ekki hægt að kenna en hins vegar sé hægt að læra allt. Þetta gæti átt við lögreglustarfið. Hann sagði við nemendurna að enginn gæti gert þá að góðum lögreglumönnum, það væri allt undir þeim sjálfum komið. Hann sagði einnig að lögreglan njóti trausts í samfélaginu og það traust hafi farið vaxandi. Traustið væri ekki sjálfgefið og allir lögreglumenn bæru ábyrgð á að viðhalda því.

Ívar Bjarki Magnússon rifjaði upp nokkur minnisstæð atvik úr náminu, m.a. blóðbragð, uppköst, hlaupasting, gólfglímur, tognanir, harðsperrur og síðast en ekki síst stökkbrettið í Sundhöllinni.

Ívar Bjarki sagði það vera ljúfsárt að standa á þessum tímamótum og kveðja góða samstarfsfélaga og vini en ljúka um leið þessum áfanga. Hann sagðist eiga eftir að horfa aftur til þessa tíma með miklum söknuði og hlýju. Í nemendahópum hafi myndast sterk vináttutengsl sem mörg hver muni halda alla tíð, þrátt fyrir að nú haldi hver í sína áttina.

Ívar Bjarki taldi að hann talaði fyrir alla í nemendahópnum þegar hann segði að skólinn hafi uppfyllt allar væntingar nemenda. Það mætti segja að menn hafi barist við sjálfa sig á hverjum degi og sífellt nýir sigrar verið unnir. Námið hafi verið í senn mjög krefjandi og skemmtilegt, nemendur oft á tíðum verið ansi þreyttir og álagið oft verið mikið en upp úr stæði skemmtilegur tími og frábært nám.

Ívar Bjarki sagði þá einkennilegu stöðu blasa við nemendahópnum að við útskrift hafi enginn úr honum fengið starf innan lögreglunnar. Það væri gagnrýnivert að standa að námi loknu án starfs, afurðin væri ekki ódýr, kostnaðurinn við menntun nemendanna hlypi á tugum milljóna króna. Því vildi hann nota tækifærið og biðla til stjórnvalda að efla almenna löggæslu á íslandi, hópurinn stæði til þjónustu reiðubúinn með á bakinu þá bestu menntun sem völ væri á hérlendis. Íslenska þjóðin og ennfremur íslenska lögreglan þurfi á kröftum þeirra að halda.

Að endingu þakkaði Ívar Bjarki, fyrir hönd útskriftarhóps Lögregluskóla ríkisins, það mikla og óeigingjarna starf sem allir þeir sem að starfi skólans hefðu komið, hefðu unnið í þeirra þágu og með því tekist að gera þennan tíma ógleymanlegan fyrir hópinn, námið hafi verið erfitt en bara gaman.

Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náði Hulda Sigríður Guðmundsdóttir með meðaleinkunnina 9,03, í öðru sæti varð Þorvaldur Ólafsson með meðaleinkunnina 9,00 og í þriðja sæti varð Hreinn Júlíus Ingvarsson með meðaleinkunnina 8,50. Allir þessir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn allra útskriftarnemendanna var 8,08.

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, afhenti Kristmundi S. Einarssyni og Þorvaldi Ólafssyni sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku. Viðurkenningin er annars vegar farandbikar, sem gefinn var af dómsmálaráðherra, og hins vegar bókarverðlaun sem gefin eru af Landssambandi lögreglumanna.

Lögreglufulltrúarnir sem starfa við Lögregluskóla ríkisins völdu úr hópi nemenda “Lögreglumann skólans” og var Hulda Sigríður Guðmundsdóttir fyrir valinu.

Árni Sigmundsson, deildarstjóri grunnnámsdeildar skólans, afhenti Huldu Sigríði viðurkenningu og sagði við það tækifæri að nú væri dimmt yfir, ekki einungis vegna þess hve dagurinn væri stuttur heldur einnig vegna ástandsins í þjóðfélaginu og óvissu með framtíðina. Því brýndi hann sérstaklega fyrir nemendum að vera jákvæðir, bjartsýnir og lífsglaðir en sogast ekki inn í hringiðu neikvæðni og svartnættis. Í myrkrinu leyndust hættur en í öllum erfiðleikum væru líka tækifæri.

Í lok brautskráningarinnar talaði Arnar Guðmundsson, skólastjóri, beint til nemendanna. Hann sagði þá hafa hæfileikana; að standast almennt lögreglupróf veitti þeim rétt til að geta starfað sem fagmenn í lögreglu ríkisins og hann vonaði svo sannarlega að þeir sem hefðu áhuga á að sinna lögreglustörfum, fengju vinnu sem fyrst.

Arnar sagði lögregluna þurfa að fá að njóta starfskrafta öflugra karla og kvenna sem sýnt hafi í lögreglunámi hvað í þeim búi – sem hafa góða nærveru – og sem hafa náð góðum árangri í almennu lögreglunámi. Raunar hefði lögreglan ekki efni á að missa af slíku fólki.

Að síðustu minnti Arnar á að allir bæru ábyrgð í lífinu. Allir bæru ábyrgð á börnum sínum og fjölskyldu, á fjárhag sínum og vinnunni sem þeir stunduðu. Allir bæru einnig ábyrgð á orðum sínum og athöfnum, framkomu sinni og umhverfinu sem þeir lifðu í.

Útskriftarhópurinn uppstilltur í Bústaðakirkju, ljósmynd Heiðar Kristjánsson, © Morgunblaðið

Útskriftarhópurinn uppstilltur í Bústaðakirkju, ljósmynd Heiðar Kristjánsson, © Morgunblaðið