27 Febrúar 2012 12:00

Föstudaginn 24. febrúar 2012 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju. Brautskráðir voru 18 nemendur sem hófu nám við skólann þann 1. mars 2011. Hlutfall kvenna í hópi brautskráðra var 27,8%.

Við athöfnina fluttu ávörp Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, Gunnlaugur V. Snævarr, fyrrverandi yfirlögregluþjónn við Lögregluskóla ríkisins og Tryggvi Hjaltason, sem talaði fyrir hönd útskriftarhópsins. Lögreglukór Reykjavíkur söng tvö lög við athöfnina.

Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náði Lárus Kazmi með meðaleinkunnina 8,97, í öðru sæti varð Tryggvi Hjaltason með meðaleinkunnina 8,93 og í þriðja sæti varð Axel Freyr Ásmundsson með meðaleinkunnina 8,67. Allir þessir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn allra útskriftarnemendanna var 8,16.

Ögmundur Jónasson afhenti Guðmundi Viðari Berg, Hildi Þuríði Rúnarsdóttur og Jóhönnu Þorbjörgu Magnúsdóttur sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku. Viðurkenningin er annars vegar farandbikar, sem gefinn var af dómsmálaráðherra á sínum tíma, og hins vegar bókarverðlaun sem gefin eru af Landssambandi lögreglumanna.

Lögreglufulltrúarnir sem starfa við Lögregluskóla ríkisins völdu úr hópi nemenda „Lögreglumann skólans“ og varð Magnús Pálsson fyrir valinu.