Nemendahópurinn ásamt Karli Gauta Hjaltasyni, skólastjóra.
15 Desember 2014 15:30

Föstudaginn 12. desember 2014 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans að Krókhálsi 5b. Brautskráðir voru 16 nemendur sem hófu grunnnám við skólann þann 14. janúar 2014.
Í fyrsta sinn í sögu lögreglunáms á Íslandi voru konur í meirihluta brautskráðra en í hópnum voru 5 karlar og 11 konur, eða 68,75% brautskráðra nemenda.
Við athöfnina fluttu ávörp Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Ólöf Nordal, innanríkisráðherra og Páley Borgþórsdóttir, sem tekur við starfi lögreglustjóra í Vestmannaeyjum um næstu áramót. Rut Herner Konráðsdóttir og Páll Fannar Helgason fluttu, fyrir hönd nemenda, annál ársins og hljómsveit, skipuð núverandi og fyrrverandi lögreglumönnum, flutti tvö lög við athöfnina.
Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náði Erna Dís Gunnarsdóttir, 9,10 og með aðra hæstu einkunn voru Björk Jónsdóttir og Rósa Árnadóttir, 8,90. Þessir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn allra útskriftarnemendanna var 8,27, sem er frábær árangur.
Lögreglufulltrúarnir sem starfa við Lögregluskóla ríkisins völdu úr hópi nemenda „Lögreglumann skólans“ og varð Rósa Árnadóttir fyrir valinu.
Í ávarpi sínu nefndi Karl Gauti Hjaltason m.a. að lögreglunámið hefði breyst mikið gegnum árin og verið lagað að kröfum tímans. Það hafi lengi verið framtíðarsýn skólans að lengja lögreglunámið en fyrir margra hluta sakir hafi ekki tekist að koma náminu í það horf sem menn hafi talið skynsamlegast.
Karl Gauti sagði breytingar á náminu í farvatninu, í kjölfar vinnu starfshóps sem falið var það verkefni að endurskoða skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins og gera tillögu til ráðherra að framtíðarskipan lögreglumenntunar. Í þessu sambandi sagði Karl Gauti afar brýnt að gæta þess að námið verði áfram tengt lögreglustarfinu og að skólinn verði sú tenging við lögregluna sem nauðsynleg er talin. Þá sagði hann mikilvægt að lögreglan í landinu láti það ekki gerast að fjármunir verði sparaðir til menntunar lögreglu á sama tíma og kröfur séu gerðar um lengingu grunnnámsins og færslu þess upp á háskólastig.
Karl Gauti sagði eitt það mikilvægasta sem lögreglan í landinu ætti væri traust fólksins og að ítrekað hafi lögreglan mælst með eitt mesta traust allra stofnana landsins. Það fjöregg þyrfti að varðveita, það gerði lögreglan best með því að vanda öll vinnubrögð, nálgast verkefni sín af ákveðni og síðast en ekki síst að koma fram við borgarana af virðingu.
Ólöf Nordal sagði m.a., í ávarpi sínu, það ánægjulegt hversu margar konur væru í útskriftarhópnum. Sagði hún hópinn eiga í vændum vandasamt og mikilvægt starf sem væri líka þakklátt. Ólöf minntist á tillögur starfshóps um breytingu á grunnnámi lögreglumanna þar sem gert væri ráð fyrir að námið yrði þriggja ára nám á háskólastigi. Sagði hún það grundvallarbreytingu á menntun lögreglumanna, enda væri það stefna stjórnvalda að efla löggæsluna og að lögreglan væri ávallt sem hæfust til að takast á við fjölbreytt verkefni. Fram kom í máli Ólafar að hún myndi meta tillögur starfshópsins á næstunni.
,,Við þurfum ávallt að eiga lögreglulið sem getur mætt nýjum verkefnum, lögreglulið sem er tilbúið að setja sig inn í nýjar aðstæður og lögreglulið á sterkum grunni sem getur lagt á sig stöðugt nýjar áskoranir. Liður í því er í fyrsta lagi grunnmenntunin, í öðru lagi reynslan og hæfnin og í þriðja lagi símenntun sem viðheldur þessum grunni,“ sagði Ólöf meðal annars.
Að ávarpi sínu loknu afhenti Ólöf Nordal þeim Rósu Árnadóttur og Sunnefu Burgess sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku en þær fengu báðar lokeinkunnina 9,5 í námsgreininni. Viðurkenningin er annars vegar farandbikar, sem gefinn var af dómsmálaráðherra á sínum tíma, og hins vegar bókarverðlaun sem gefin eru af Landssambandi lögreglumanna.
Í annál nemenda röktu Páll Fannar Helgason og Rut Herner Konráðsdóttir, á gamansaman hátt, það minnisstæðasta úr náminu á árinu, sem þeim þótti í heild sinni hafa verið stórskemmtilegt og fjölbreytt. Meðal þess sem þau nefndu var næturæfing, þjálfun í valdbeitingu og notkun táragass, notkun talstöðva, akstursþjálfun og þjálfun með Landhelgisgæslunni.
Páll Fannar og Rut sögðu að nemendur myndu hugsa til tímans í Lögregluskóla ríkisins með söknuði og að þeir hafi fengið góðan undirbúning fyrir lögreglustarfið í skólanum á þessu ári. Þau hrósuðu sérstaklega starfsfólki skólans, og öllum þeim sem nemendur kynntumst í náminu, fyrir fagmennsku. Að lokum sögðu Páll Fannar og Rut að nemendur mættu vera stoltir af því að hafa lokið námi við Lögregluskóla ríkisins og sögðust þess fullviss að þeir myndu allir vinna gott lögreglustarf í framtíðinni.
Páley Borgþórsdóttir beindi orðum sínum til nemenda og sagði m.a. að nú væri stór dagur í lífi þeirra, dagur sem markaði upphaf, upphaf að nýju starfi, nýjum áskorunum og nýjum tækifærum. Þeir ættu eflaust langan starfsferil fyrir höndum en meðalstarfsævi væri talin vera um 35 ár. Páley óskaði nemendum innilega til hamingju með að vera að hefja starfsævi sína, hún yrði viðburðarík og áhugaverð, ef þeir leyfðu það.
Páley sagðist vilja deila uppáhalds spakmæli sínu með nemendum og bjóða þeim að gera það að sínu eigin. Spakmælið er komið frá Dalai Lama, sem útskýrði mannlega hamingju með þeim orðum að hún sé ekki fólgin í því að gera það sem hver og einn hefur ánægju af, heldur að hafa ánægju af því sem hann gerir. Páley sagði þetta snúast um viðhorf, með hvaða viðhorfi tekist er á við verkefni hvers dags.
Páley sagði nemendunum að þeir væru þrautþjálfaðir í allskyns viðbrögðum við erfiðar aðstæður, þar sem þeim væri uppálagt að bregðast við af öryggi og fumleysi. Það væri hins vegar ekki síður mikilvægt að hafa stjórn á hugsuninni og huganum. Það ætti svo margt eftir að henda í kringum þá sem þeir hefðu enga stjórn á og þá væri gott að muna að hver og einn stjórni allajafna aðeins sínum viðbrögðum sem gætu svo aftur skipt sköpum.
Páley brýndi fyrir nemendum að hafa það viðhorf að öll verkefni skipti máli, að sjá tilganginn í smávægilegustu og erfiðustu verkefnum og halda í gleðina. Einnig hvatti hún nemendur til að vera jákvæða, bjartsýna og trúa á hið góða. Í spakmæli Dalai Lama væri fólgið að njóta hversdagslegra athafna, vera vakandi, lifa í augnablikinu og læra að njóta þess.
Í ávarpi sínu ræddi Páley um jafnréttismál og bað nemendur, sem nú væru að byrja starfsævina, um að vera vakandi og standa saman, jafnrétti snerist um jöfn tækifæri karla og kvenna og væri fyrir bæði kynin. Kynin væru ólík, bæði að líkamlegri getu og ýmsum eiginleikum, en vægu hvort annað svo sannarlega upp.
Að lokum sagði Páley við nemendur að þeir myndu eiga gæfuríka starfsævi ef þeir bæru virðingu hver fyrir öðrum og öllum manneskjum og hefðu ánægju af því sem þeir gerðu, jafnt í leik og starfi.

Hér að neðan má sjá nokkrar ljósmyndir frá athöfninni, myndirnar tóku þeir Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins og Guðmundur Ásgreirsson, lögreglufulltrúi við Lögregluskóla ríkisins.

 

 

Brautskráðir lögreglumenn

Brautskráðir lögreglumenn

Sunnefa Burgess og Rósa Árnadóttir fengu viðurkenningu fyrir glæstan árangur í íslensku, Ólöf Nordal, innanríkisráðherra afhenti þeim viðurkenninguna

Sunnefa Burgess og Rósa Árnadóttir fengu viðurkenningu fyrir glæstan árangur í íslensku, Ólöf Nordal, innanríkisráðherra afhenti þeim viðurkenninguna

reglumaður skólans, Rósa Árnadóttir, ásamt Guðmundi Ásgeirssyni, lögreglufulltrúa.

Lögreglumaður skólans, Rósa Árnadóttir, ásamt Guðmundi Ásgeirssyni, lögreglufulltrúa

Björk Jónsdóttir, Rósa Árnadóttir og Erna Dís Gunnarsdóttir fengu viðurkenningu fyrir góðan námsárangur

Björk Jónsdóttir, Rósa Árnadóttir og Erna Dís Gunnarsdóttir fengu viðurkenningu fyrir góðan námsárangur

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra