24 Júní 2004 12:00

Föstudaginn 18. júní s.l. voru brautskráðir fyrstu nemendurnir í stjórnunarnámi Lögregluskóla ríkisins sem haldið er í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ). Nemendurnir voru 42 talsins, lögreglumenn og lögreglustjórar, þeir hófu námið í marsmánuði 2003 og því lauk með skilum lokaverkefna í maí s.l.

Námið er liðlega 300 klukkustundir í Lögregluskólanum en þar við bætist verkefnavinna í upphafi, milli námslota og við lokaverkefni þannig að vinnuframlagið er mun meira. Námið er metið til 23 háskólaeininga og því fyrsta lögreglunám hér á landi sem er á háskólastigi. Lögregluskólinn óskar hinum nýútskrifuðu stjórnendum til hamingju með þennan árangur.

Þennan sama dag útskrifaði EHÍ sjö aðra hópa, samtals liðlega 170 nemendur  úr lengra námi og var hópur stjórnenda í lögreglu stærsti einstaki hópurinn. Hann setti mjög svip sinn á athöfnina þar sem kandidatarnir mættu í hátíðabúningi lögreglunnar.

Námsárangur í þessum fyrsta hópi var mjög góður. Hæstu meðaleinkunn, 9,15, hlaut Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Ísafirði. Í öðru sæti var Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Keflavík með 9,12 og í þriðja sæti var Baldvin Einarsson, lögreglufulltrúi í Reykjavík með 9,09.

Lögregluskólinn fagnar því mjög að hafa náð þeim áfanga að koma á skipulögðu námi fyrir stjórnendur í lögreglu ríkisins og einnig því hversu ánægjulegt og gefandi samstarfið hefur verið við nemendur og Endurmenntun Háskóla Íslands.

Lögregluskólinn og EHÍ hafa undirritað samning um áframhaldandi samstarf á komandi skólaári og nýr hópur nemenda, 24 alls, hóf samsvarandi nám í janúar s.l. með fjarnámi og sest á skólabekk í Lögregluskólanum í september.