20 Október 2009 12:00

Tæplega þrjátíu manns sátu fund sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti með fulltrúum Breiðhyltinga í gær en fundurinn var haldinn í Mjóddinni. Á honum var farið yfir þróun brota í hverfinu undanfarin ár en mjög horfir nú til betri vegar í Breiðholti í þeim efnum. Á síðasta ári fækkaði t.d. bæði ofbeldis- og fíkniefnabrotum í samanburði við árin þar á undan. Eignaspjöllum fækkar líka á sama tímabili og innbrot árið 2008 voru nánast jafnmörg og 2007. Fyrstu níu mánuði þessa árs fjölgaði reyndar innbrotum í Breiðholti í samanburði við sömu mánuði í fyrra. Sama þróun hefur hinsvegar almennt átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu og því sker Breiðholtið sig engan veginn úr hvað þetta snertir. Yfirleitt eru Breiðhyltingar í góðum málum og mega vera stoltir af hverfinu sínu. Það var Heimir Ríkarðsson lögreglufulltrúi sem kynnti þessar niðurstöður fyrir fundarmönnum en tölfræðina í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Líkt og á fyrri fundum í haust, en lögreglan fundar nú með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu, var farið yfir helstu breytingar sem hafa orðið á skipulagi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Það gerði Stefán Eiríksson lögreglustjóri en í stuttu máli felast þær í því að efla bæði almenna löggæslu og rannsóknir mála. Ekki voru allir fulltrúar íbúanna hlynntir breytingunum en áhyggjur þeirra snerust fyrst og fremst að hlutverki svokallaðra hverfislögreglumanna. Bæði lögreglustjóri og Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn fullvissuðu nærstadda um að áhyggjurnar væru óþarfar. Eftir breytingarnar væru fleiri lögreglumenn sem byggju yfir góðri þekkingu á hverfinu og væru til þess færir að grípa inn í þegar á þyrfti að halda, t.d. ef koma upp vandamál með unglingana. Í þessu samhengi er þó rétt að geta þess að sú hópamyndun unglinga sem áður þekktist í Breiðholti og gat stundum verið til vandræða heyrir nú sögunni til.

Á fundinum voru einnig kynntar niðurstöður könnunar um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Breiðhyltingar telja almennt að lögreglan sé frekar aðgengileg þegar þeir þurfa að fá upplýsingar, aðstoð eða fræðslu en 76% þeirra töldu svo vera. Breiðholtsbúar eru sömuleiðis mjög öruggir þegar þeir eru einir á ferð í hverfinu sínu eftir að myrkur er skollið á en um 90% hafa þá tilfinningu. Spurðir um hvaða brot þeir telji mesta vandamálið í hverfinu nefndu flestir, eða 58,9%, innbrot. Þess má geta að íbúar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu nefndu einnig innbrot sem mesta vandamálið í sínum hverfum. Það var Gylfi Sigurðsson aðalvarðstjóri sem upplýsti fundarmenn um þessa könnun en hún var birt á lögregluvefnum fyrr á árinu. Könnunina má nálgast með því að smella hér.

Fjölmargt annað var til umræðu og greinilegt að fundarmenn láta sig málefni Breiðholts miklu varða. Umferðarmálin eru þar ekki undanskyld en Geir Jón fór vel yfir þau og greindi frá þeirri ánægjulegu staðreynd að slysum í umferðinni hefur fækkað mjög verulega. Að síðustu er ekki annað hægt en að greina frá atviki sem kom upp rétt í þann mund sem fundurinn var að hefjast. Þá kom útkall þess efnis að verið væri að stela matvöru í verslunarmiðstöðinni í Mjódd. Þjófurinn var handtekinn hið snarasta og átti sér engrar undankomu auðið enda ófáir lögreglumenn á svæðinu. Hluti þeirra var að fara á fundinn, sem hér hefur verið til umfjöllunar, og því var stutt að fara á brotavettvang enda var hann bara í næsta húsi við fundarstaðinn! Þjófurinn, karl um fertugt, hefur áður komið við sögu hjá lögreglu.