31 Mars 2009 12:00

Frá og með miðvikudeginum 1. apríl 2009 verður gerð breyting á afgreiðslu umsókna um fyrsta ökuskírteini.    Til þessa hafa þeir sem hafa lokið ökunámi þurft að sækja um próftökuheimild og að stöðnu ökuprófi hafa þau þurft að fara á næstu skrifstofu lögreglustjóra eða sýslumanns og sækja um ökuskírteini og koma síðan í þriðja skipti til að sækja ökuskírteinið þegar það er komið úr framleiðslu.

Eftirleiðis mun verða hægt að sækja um ökuskírteini um leið og sótt er um próftökuheimild.   Umsækjendur hafa þá með sér nýja passamynd og skila inn með umsókninni, ásamt þeim gögnum sem þurfa að fylgja vegna próftökunnar.      Að lokinni afgreiðslu lögreglu eða sýslumanns eru gögnin, ásamt bráðabirgðaakstursheimild, send til þeirra sem sjá um ökupróf í umboði Umferðarstofu.   Að stöðnu ökuprófi staðfestir prófdómari bráðabirgðaakstursheimildina og afhendir umsækjandanum, sem þar með hefur öðlast ökuréttindi.    Öll gögn til staðfestingar er síðan send til þess lögreglu- eða sýslumannsembættis sem gaf út próftökuheimildina og þar verður í framhaldi gengið frá pöntun á ökuskírteini fyrir viðkomandi.   Þegar ökuskírteinið berst úr framleiðslu verður það sent til umsækjandans í pósti.

Árlega sækja um það bil 4.000 einstaklingar um fyrsta ökuskírteini og með framangreindu fyrirkomulagi verður því hægt að fækka heimsóknum þessa fólks um allt að því 8.000 á ári.