2 September 2004 12:00
Lögreglan á Ísafirði, Vá Vesthópurinn og skóla- og fjölskylduskrifstofa Ísafjarðarbæjar vilja minna börn og foreldra á árlega breytingu á útivistartíma barna. Nú þann 1. september sl. styttist sá tími sem börn mega vera úti á almannafæri. Í þessu sambandi er minnt á ísskápssegulinn góða sem Vá Vesthópurinn, með aðstoð fyrirtækjanna 3 x Stál, Íslandsbanka og Eimskips/Flytjanda, lét útbúa og dreifa á hvert heimili á norðanverðum Vestfjörðum fyrir nokkrum árum síðan. Ef einhverjir foreldrar eiga þennan ísskápssegul ekki þá er þeim velkomið að nálgast hann á lögreglustöðina á Ísafirði.
Að lokum vill lögreglan minna foreldra á orð sálfræðinganna Sæmundar Hafsteinssonar og Jóhanns Inga Gunnarssonar um barna og unglingauppeldi :
„Reglur eru þroska barna okkar afar mikilvægar og leggja grunn að velgengni í mannlegum samskiptum. Það er lagaleg og siðferðileg skylda okkar að kenna börnum okkar að virða lög og reglur og þekkja sín mörk í mannlegum samskiptum. Virðing fyrir reglum styrkir einstaklinginn en veikir hann ekki.“