12 Janúar 2006 12:00

Ríkislögreglustjóri og Háskólaútgáfan hafa gefið út bókina Brotaþolar, lögreglan og öryggi borgaranna eftir þau Rannveigu Þórisdóttur, Helga Gunnlaugsson og Vilborgu Magnúsdóttur. Í bókinni eru birtar helstu niðurstöður úr íslenska hluta Alþjóðlega fórnarlambakönnunarinnar sem framkvæmd var hér á landi í fyrsta skiptið í byrjun árs 2005. Um er að ræða spurningalistakönnun sem byggir á úrtaki 3.000 Íslendinga 16 ára og eldri af landinu öllu og var svarhlutfall 67%. Ríkislögreglustjóri og Háskóli Íslands standa að rannsókninni en að auki hafa RANNÍS, Dómsmálaráðuneyti, Rannsóknarsjóður Háskóla Íslands og Norræna sakfræðiráðið styrkt verkefnið.

Reynsla af brotum

Í rannsókninni kemur fram að í heildina hafði rúmlega helmingur svarenda eða einhver á heimili þeirra orðið fyrir afbroti á síðustu fimm árum, þar af 22 prósent árið 2004. Þegar litið er til reynslu síðustu fimm ára sögðu hlutfallslega flestir að þeir eða einhver á heimili þeirra hefði orðið fyrir reiðhjólaþjófnaði (22%), þá þjófnaði á veski eða öðrum munum (20%), ofbeldi eða hótun (16%) eða að munum væri stolið úr ökutæki þeirra (16%). Mun færri höfðu orðið fyrir kynferðisbroti (6%), tilraun til innbrots (5%), innbroti (4%), þjófnaði á ökutæki (3%) eða ráni (2%). Þegar hlutfall þeirra brota sem áttu sér stað árið 2004 er skoðað kemur fram að hlutfallslega flestir nefndu þjófnað og ofbeldi eða hótun (7%), þjófnað á reiðhjóli (5%) og þjófnað úr ökutæki (4%). Tæplega tvö prósent þátttakenda sögðust hafa orðið fyrir kynferðisbroti, innbroti eða tilraun til innbrots árið 2004.

Mun fleiri konur (10%) en karlar (1,3%) sögðust hafa orðið fyrir kynferðisbroti en ekki var mikill munur á því hvort þau lýstu atvikinu sem alvarlegu kynferðisbroti eða særandi framkomu. Mun fleiri karlar en konur sögðust hins vegar hafa orðið fyrir ofbeldi eða alvarlegri hótun, eða um 21 prósent karla og 12 prósent kvenna. Sömu sögu er að segja af ránum, ívið fleiri karlar en konur höfðu orðið fyrir ráni.

Fram kemur að þátttakendur í yngsta aldurshópnum urðu frekar en aðrir fyrir kynferðisbroti á síðustu fimm árum. Það sama á við um ofbeldisbrot.

Tilkynningar til lögreglu

Í heildina tilkynntu rúmlega 57 prósent þeirra sem sögðu að þeir eða einhver í fjölskyldu þeirra hefði orðið fyrir afbroti á síðustu fimm árum eitt eða fleiri brot til lögreglunnar. Munur milli brotaflokka er hins vegar töluverður og voru til að mynda um 58 prósent auðgunarbrota tilkynnt en einungis um 24 prósent allra ofbeldisbrota (það er kynferðisbrot, ofbeldisbrot og rán). Þegar litið er til einstakra brotaflokka kemur fram að 94 prósent svarenda sögðu þjófnað á ökutæki hafa verið tilkynntan til lögreglu og sama sögðu rúmlega 73 prósent þeirra sem brotist hafði verið inn hjá. Um 67 prósent þeirra sem höfðu orðið fyrir því að stolið væri úr ökutæki sögðust hafa tilkynnt atvikið til lögreglu, tæplega 63% prósent þeirra sem sögðu að rafknúnu hjóli hefði verið stolið frá þeim og 54 prósent þeirra sem sögðu að reiðhjóli hefði verið stolið. Mun færri sögðust hafa tilkynnt ofbeldisbrot (29,6%), kynferðisbrot (5,8%) og rán (42,1%).

Viðhorf til lögreglu

Af þeim sem tilkynntu brot til lögreglu var nokkuð breytilegt hvort þeir væru ánægðir með úrlausn lögreglu. Þannig sögðu tæplega 77 prósent þeirra sem höfðu tilkynnt innbrot að þeir væru ánægðir með það hvernig lögregla leysti úr málinu en 43 prósent þeirra sem tilkynntu kynferðisbrot sögðu slíkt hið sama. Þetta er í samræmi við fyrri rannsóknir sem benda til þess að þolendur brota séu jafnan ánægðari með það hvernig lögregla leysir úr auðgunarbrotum en ofbeldisbrotum.

Þeir sem voru ósáttir við hvernig lögreglan tók á málinu voru í framhaldinu spurðir um ástæður óánægjunnar. Flestir töldu að lögreglan hefði ekki gert nóg í málinu eða hefði ekki sýnt nægan áhuga á því. Þetta virðist einna helst eiga við um þá sem voru óánægðir með úrlausn lögreglu í kynferðisbrotum.

Viðhorf til lögreglu var einnig skoðað almennt með því að spyrja um hversu góður eða slæmur árangur svarendur teldu vera af starfi lögreglu við að draga úr afbrotum í hverfinu þeirra. Yfirgnæfandi meirihluti (um 90%) taldi lögreglu vinna mjög eða frekar gott starf en rúmlega 10 prósent frekar eða mjög slæmt starf. Viðhorf karla og kvenna til starfa lögreglu var mjög svipað en hins vegar töldu þeir sem eldri eru lögreglu sinna mjög eða frekar góðu starfi fremur en þeir sem eru yngri. Einnig telja þeir sem segja að þeir eða einhver í fjölskyldu þeirra hafi orðið þolandi brota á síðustu fimm árum fremur en aðrir að lögregla standi sig frekar eða mjög illa við að stemma stigu við afbrotum í hverfinu þeirra. Hins vegar er ekki munur á viðhorfum til starfa lögreglu eftir tekjum eða búsetu.

Nánari upplýsingar um rannsóknina má finna í helstu niðurstöðum eða í útdrætti úr skýrslunni.