22 Febrúar 2013 12:00

Tilkynnt var um innbrot í íbúðarhúsnæði í Keflavík í nótt. Tilkynningin barst lögreglunni á Suðurnesjum rétt upp úr miðnætti. Gluggi hafði verið spenntur upp og sá eða hinir óprúttnu komist inn með þeim hætti. Einhverjum fjármunum var stolið, en auk þess höfðu þjófarnir rótað til í húsnæðinu og skrúfað frá kaldavatnskrana undir vaski í eldhúsinu. Töluvert vatn var á gólfi þegar húsráðandi kom heim. Málið er í rannsókn.

Réttindalaus í fíkniefnaakstri

Lögreglan á Suðurnesjum handtók tvo ökumenn í fyrradag vegna gruns um fíkniefnaakstur, svo og fleiri brota í umferðinni. Annar mannanna var réttindalaus við stýrið og staðfestu sýnatökur að hann hafði neytt kókaíns og kannabis. Hinn ók bifreið sem var með öllu ljóslaus. Í viðræðum lögreglu við hann vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn neitaði að fara á lögreglustöð og láta í té þvagsýni. Hann var því handtekinn. Á lögreglustöðinni neitaði hann enn sýnatöku og var honum þá tjáð að slíkt gæti varðað eins árs sviptingu ökuleyfis. Hann þráaðist enn við og var þá sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Sjö óku of hratt

Sjö ökumenn hafa á síðustu dögum verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Brotin áttu sér flest stað á Grindavíkurvegi, en einnig á Reykjanesbraut og Garðskagavegi. Sá sem hraðast ók mældist á 128 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Einn ökumaður til viðbótar var ekki í bílbelti. Loks voru númer klippt af bifreið sem hafði ekki verið færð til skoðunar innan tilsettra tímamarka. Hún var að auki með filmur í fremri hliðarrúðum.