14 Desember 2007 12:00

Um kl. 03:30 síðastliðna nótt barst tilkynning til lögreglunnar í Vestmannaeyjum um að eldur væri laus í Fiskiðjuhúsinu við Ægisgötu 2.  Þegar lögreglan og slökkvilið komu á staðinn var töluverður eldur á annarri hæð og mikill reykur um allt húsið, sem er þriggja hæða gamalt fiskvinnsluhús og verbúðir.  Greiðlega gekk að slökkva eldinn og reykræsa húsið og eru menn á einu máli um að eldur hefði getað læst sig um allt hús, ef starfsmaður í nálægri byggingu hefði ekki séð reyk og tilkynnt lögreglu.

Málið er til rannsóknar og er sterkur grunur á að um íkveikju sé að ræða og hafa á tug ungra manna verið yfirheyrðir og sumir verið í haldi frá því snemma í morgun.  Rannsókn hefur beinst að því að upplýsa mannaferðir í húsinu skömmu fyrir brunann og hefur hún leitt í ljós að nokkrir ungir menn voru í húsinu fyrr um nóttina.  Húsið hefur verið lokað að undanförnu, en nokkrir aðilar hafa haft lyklavöld að því, m.a. til hljómsveitaræfinga.

Nú undir kvöld var maður handtekinn sem lögregla telur að hafi verið í húsinu skömmu fyrir brunann og hefjast skýrslutökur af honum í kvöld, en skýrslum af þeim aðilum sem fyrst voru færðir til yfirheyrslu er að mestu lokið og verður þeim sleppt að því loknu.