5 Október 2007 12:00
Dagana 30. september til 3. október s.l. var haldið hér á landi námskeið á vegum samtaka evrópskra lögreglumenntastofnana, CEPOL (http://www.cepol.europa.eu/). Lögregluskóli ríkisins skipulagði námskeiðið, í samvinnu við lögregluskólana í Finnlandi og Svíþjóð.
Námskeiðið, sem var ætlað kennurum lögregluskóla innan Evrópusambandsins (ESB), fjallaði um framsetningu kennsluefnis til að efla þekkingu innan lögreglunnar á skipulagðri glæpastarfsemi með því að fella kynningu á greiningarvinnu EUROPOL, sem birtist í svokallaðri OCTA-skýrslu (Organized Crime Trend Accessment), inn í námsefni og kynningarefni fyrir lögreglu. Þátttakendur á námskeiðinu voru 20 og komu þeir frá 15 ríkjum ESB og samstarfsríkjum þeirra, þar af tveir frá Íslandi. Kennarar á námskeiðinu komu m.a. frá Europol, höfuðstöðvum CEPOL, Finnlandi og Íslandi.
Árið 2006 gerði Lögregluskóli ríkisins formlegan samstarfssamning við CEPOL, að frumkvæði dómsmálaráðherra, en fram að því hafði skólinn tekið þátt í samstarfinu með óformlegum hætti. Með samningum fá íslensk lögregluyfirvöld tækifæri til að senda starfsmenn lögreglunnar á námskeið um tiltekin málefni sem flest snúa að vörnum gegn skipulagðri glæpastarfsemi, sem teygir anga sína yfir landamæri, sem og öðrum áhersluatriðum ESB í löggæslumálum. Einnig fær Lögregluskóli ríkisins tækifæri til að skipuleggja og halda námskeið eins og gert var nú í fyrsta sinn.
Það sem af er þessu ári hafa 12 Íslendingar sem starfa innan lögreglunnar sótt námskeið CEPOL. Námskeiðin hafa verið af ýmsum toga og binda stjórn Lögregluskóla ríkisins og yfirstjórn lögreglumála á Íslandi miklar vonir við þetta samstarf sem er góð viðbót við aðra menntun og þjálfun sem starfsmönnum í lögreglu stendur til boða hér á landi.
Hér má sjá hluta þátttakendanna á námskeiðinu.