24 Mars 2021 18:49

Við komu súrálsskips til Mjóeyrarhafnar á Reyðarfirði laugardaginn 20. mars voru sýni tekin af öllum áhafnarmeðlimum vegna gruns um COVID smit. Nítján eru í áhöfn og reyndust tíu þeirra með COVID-19 en níu ekki. Hinir smituðu hafa síðan verið í einangrun um borð og níumenningarnir í sóttkví.

Mánudaginn 22. mars voru sýni tekin að nýju af þeim sem ekki höfðu greinst með smit auk þess sem mótefnamæling var gerð. Allir níumenningarnir reyndust enn án COVID-smits sem bendir til að sóttvarnir um borð séu í samræmi við leiðbeiningar. Enginn þeirra reyndist heldur með mótefni. Staðan því óbreytt að tíu virk smit eru um borð.

Vel er sem fyrr fylgst með áhafnarmeðlimum og þeim veitt aðhlynning eftir þörfum, síðast í dag um hádegisbil þegar læknir og hjúkrunarfræðingur fóru um borð til að meta ástand þeirra og líðan. Enginn hinna smituðu er alvarlega veikur og því ekki verið ástæða til að flytja neinn þeirra frá borði til frekari aðhlynningar.