3 Nóvember 2003 12:00

Dómur fyrir stórfelld misferli með kvóta, umboðssvik og stórfelld skattalagabrot.

Héraðsdómur Vesturlands kvað þann 31. október sl. upp dóm í alvarlegasta máli sem komið hefur til kasta dómstóla vegna veiða umfram aflaheimildir. Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkislögreglustjórans gegn 6 mönnum sem ýmist gengdu stöðu skipstjóra eða framkvæmdastjóra þeirra 5 útgerðarfélaga sem komu við sögu. Einn hinna ákærðu ásamt einu félaganna voru sýknuð. Að auki var eitt félaganna orðið gjaldþrota og var því ekki ákært eins og hin 4.

 Auk veiða umfram kvóta voru tveir mannanna sakfeldir fyrir umboðssvik, brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa veitt langt umfram veiðiheimildir skips sem þeir höfðu á leigu með þeim afleiðingum að það var svift veiðileyfi. Eigandi skipsins þurfti að kaupa veiðiheimildir til þess í því skyni að fá aftur útgefið veiðileyfi á það, eftir að ákærðu skildu við skipið.

Framangreindir tveir menn sem hlutu þyngstu refsinguna voru einnig sakfelldir fyrir stórfelld skattalagabrot með því að hafa eigi staðið innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda í rekstri tveggja félaga samtals kr. 17.244.489.

Eftirtaldar refsingar voru gerðar í málinu.

Dæmdi nr. 1. Sex mánaða fangelsi auk kr. 20 milljóna í sektar og 12 mánaða fangelsi til vara verði sektin ekki greidd.

Dæmdi nr. 2. Þriggja mánaða fangelsi auk kr. 18 milljóna í sektar og 12 mánaða fangelsi til vara verði sektin ekki greidd.

Dæmdi nr. 3. Tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár, auk kr. 800 þúsunda í sekt og 72 daga fangelsis til vara.

Dæmdi nr. 4.  Eins mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár, auk kr. 600 þúsunda í sekt og 56 daga fangelsi til vara.

Dæmdi nr. 5.  Kr. 800 þúsundir í sekt, auk 72 daga fangelsi til vara.

Ákærði nr. 6. Sjötti maðurinn var sýknaður.

Auk framangreinds var einum dæmdu gert að greiða Landsbanka Íslands hf. skaðabætur að fjárhæð kr. 13.669.035 og öllum dæmdu í misjöfnum mæli auk einkahlutafélaganna, gert að þola upptöku andvirðis ólögmæts sjávarafla samtals rúmlega kr. 101 milljónir.

Mál þetta er nr. S-289/2003.