22 Janúar 2004 12:00

Föstudaginn 16. janúar sl. var 19 ára  karlmaður dæmdur í 350.000 kr. sekt í Héraðs-dómi Vestfjarða fyrir tíu brot  á umferðarlögum auk þriggja brota á löggjöf um ávana- og fíkniefni, en hann hafði jafnmörgum sinnum verið tekinn með kannabis í fórum sínum.  Ef sektin greiðist ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins skal hann sæta fangelsi í 35 daga.

Öll þau umferðarlagabrot sem maðurinn var dæmdur fyrir voru vegna aksturs umfram leyfðan hámarkshraða.  Þau voru voru framin í sjö lögregluumdæmum á tímabilinu 15. mars til 10. júlí í fyrra.og vörðuðu alls 17 punktum samkvæmt reglum reglugerðar nr. 431/1998 um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Fyrir hafði maðurinn, sem var 18 ára er brotin voru framin, tvo punkta.  Miðað við fjölda punkta hefði hann átt að sæta sviptingu ökuréttar í a.m.k. sex mánuði auk eins mánaðar í viðbót þar sem hann í einu tilfelli ók á 121 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hraði var 70 km á klukkustund, en sú háttsemi ein og sér leiðir til eins mánaðar sviptingar ökuréttar.  Dómari í málinu féllst ekki á sjö mánaða sviptingu heldur dæmdi manninn til að sæta sviptingu í fjóra mánuði, þ.e. þrjá mánuði á grundvelli uppsafnaðra punkta auk þess eins mánaðar sem áður getur.  Þótti dóminum ekki mega skilja orðalag 2. mgr. 101. gr. umferðarlaga og 8. gr. nefndrar reglugerðar svo að svipta bæri ökurétti lengur en þrjá mánuði í senn vegna uppsafnaðra punkta.  Þeir punktar sem eru umfram þessa sjö falla því niður.

Þar sem maðurinn var 18 ára þegar hann framdi brotin og því einungis með bráða-birgðaökuskírteini bar að svipta hann ökurétti þegar hann hafði náð sjö staðfestum punktum en ökumenn með bráðabirgðaskírteini mega ekki fá fleir punkta en það til að svæta sviptingu ökuréttar.  Þeir sem hafa fullnaðarskírteini mega hins vegar fá allt að 12 punktum áður en til sviptingar kemur.  Maðurinn hafði látið undir höfuð leggjast að greiða útsend sektarboð vegna brota sinna og því staðfestust punktarnir ekki og af þeim sökum gat hannn haldið uppteknum hætti þar til sýslumaðurinn í Bolungarvík svipti hann ökurétti til bráðabirgða 14. október á liðnu ári og ákærði í framhaldinu fyrir öll brotin í einu lagi.