15 Desember 2008 12:00

Jólagetraun lögreglunnar og Umferðarstofu er fyrir alla krakka í 1. til 5. bekk en lagðar voru fram átta spurningar um umferðarmál. Vinningshafar í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru dregnir út föstudaginn 12. desember en í verðlaun er bókin Ævintýrið um augastein eftir Felix Bergsson en Halla Sólveig Þorgeirsdóttir myndskreytti. Í bókinni segir frá ævintýrinu um drenginn sem átti bara einn skó.

Dregið var úr innsendum lausnum á lögreglustöðinni við Hverfisgötu en hið sama var einnig gert á svæðisstöðvum í umdæminu. Rúmlega 600 krakkar fá verðlaun en bækurnar verða keyrðar til vinningshafa á næstu dögum.

Þau sáu um að allt færi fram samkvæmt settum reglum. Hilmar Harðarson rannsóknarlögreglumaður, Sigurður Helgason, verkefnastjóri sérverkefna umferðaröryggissviðs Umferðarstofu, Þóra Magnea Magnúsdóttir, fræðslufulltrúi umferðaröryggissviðs Umferðarstofu, Börkur Vígþórsson, skólastjóri Grandaskóla, Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness, Hildur Rún Björnsdóttir rannsóknarlögreglumaður og Karin Erna Elmarsdóttir, fræðslufulltrúi umferðaröryggissviðs Umferðarstofu.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri árituðu um 300 bækur.