25 September 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum hafði í gærkvöld afskipti af karlmanni á fimmtugsaldri sem ók dráttarvél, ölvaður og sviptur ökuréttindum, eftir Garðvegi. Maðurinn var að flytja heyrúllur og athygli vakti að bæði dráttarvélin og vagninn voru ljóslaus að aftan, og enginn glitmerki á vagninum. Lögreglan stöðvaði akstur mannsins og fannst þá rammur áfengisþefur af honum. Hann var því handtekinn og færður á lögreglustöð. Festivagninn sem heyrúllurnar voru á reyndist við athugun vera  óskráður og einnig vantaði skráningarmerki og baksýnisspegla á dráttarvélina. Í henni fannst hálfs lítra flaska af áfengisblöndu.

Ökumaður framvísaði kannabis

Kona á þrítugsaldri var stöðvuð í gær þar sem hún ók, svipt ökuréttindum, í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Grunsemdir vöknuðu um að konan væri með fíkniefni í vörslum sínum. Það leiddi til þess að húsleit var gerð á heimili hennar  og framvísaði hún þar kannabisefnum. Þá voru höfð afskipti af tveimur ökuþórum sem óku allt of hratt. Annar þeirra mældist á 146 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km. á klukkustund. Hinn mældist á 128 km. hraða, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 70 km. á klukkustund.