11 Október 2012 12:00

Um miðjan júní síðastliðinn var lögreglunni á Selfossi tilkynnt um þjófnað á Scarlet Macaw páfagauki úr búri í dýragarðinum á Slakka í Laugarási.  Síðast var vitað um fuglinn í búri sínu að kvöldi 16. júní en var horfinn að morgni þjóðhátíðardagsins.  Ekkert hefur spurst til fuglsins fyrr en í síðustu viku að fuglinn var auglýstur til sölu á bland.is og þar gefið upp símanúmer sem átti að hringja í.  Páfagaukurinn heitir Seifur og er 12 ára.  Þessi tegund er mjög dýr og nokkuð stór, vænghaf hátt í 120 sentimetrar og geta orðið meira en 50 ára gamlir. 

Úrskurð dómara þurfti til að afla upplýsinga frá símafyrirtæki um hver stæði á bak við auglýsinguna.  Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðaði við eftirfylgni og fór á heimili þess sem sendi inn auglýsinguna sem reyndist vera unglingur.  Þar var enginn páfagaukur en skýring á auglýsingunni var sá að um hrekk væri að ræða.  Unglingar höfðu tekið upp á því að auglýsa ísskáp á bland.is og gáfu upp símanúmer hjá félaga sínum.  Til að ná fram hefndum afréð sá sem varð fyrir hrekknum að taka upp frétt úr DV frá í vor þar sem lýst var eftir páfagauknum og nota upplýsingar og mynd úr fréttinni til að setja í auglýsinguna og gefa þar upp símanúmer þess sem upphóf hrekkinn.   

Eftir sem áður er Seifur týndur og ekkert til hans spurst.  Lögreglan biður því alla sem vita um afdrif páfagauksins Seifs eða hvar hann gæti verið niðurkominn að hafa samband í síma 480 1010. 

  

Páfagaukurinn Seifur