25 Maí 2009 12:00

Síðastliðna helgi komu fjögur fíkniefnamál upp hjá lögreglunni á Akureyri þar sem haldlagðar voru rúmlega 60 e-töflur, tæp 10 grömm af kókaíni og svipað magn af amfetamíni auk smáræðis af hassi. Þá lagði lögregla hald á peninga sem taldir eru vera ágóði af fíkniefnasölu. Þrír ökumenn voru teknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Aðfararnótt laugardagsins var maður á þrítugsaldri handtekinn í miðbæ Akureyrar með rúmlega 20 e-töflur á sér. Lögregla hafði framkvæmt leit í bifreið sem tengdist manninum fyrr um kvöldið og fundið þá um 40 e-töflur til viðbótar auk tæplega 10 gramma af kókaíni. Maðurinn er grunaður um að hafa ætlað fíkniefnin til sölu á Akureyri en lögreglan haldlagði hjá honum peninga sem taldir eru vera ágóði af fíkniefnasölu. Málið er í rannsókn.

Sömu nótt framkvæmdi lögreglan húsleit í íbúð í miðbæ Akureyrar og handtók þar einn dreng og þrjár stúlkur á tvítugsaldri. Við leit í íbúðinni fundust tæp 10 grömm af amfetamíni og smáræði af kókaíni, hassi og e-töflum. Drengurinn og ein stúlkan gengust við að eiga efnin. Við húsleitina fannst einnig þýfi, þ.á.m. fartölvur, hljómflutningstæki, skartgripir og heimabíótæki, sem reyndist vera úr innbroti í einbýlishús á Akureyri. Innbrotið hafði verið tilkynnt til lögreglu fyrr um kvöldið. Við framhaldsrannsókn handtók lögreglan einn dreng á tvítugsaldri til viðbótar um nóttina og við skýrslutökur daginn eftir játaði hann á sig innbrotið. Við leit á heimli hans fannst afgangurinn af þýfinu og þrír blómapottar sem hann kvaðst hafa notað við að reyna að rækta kannabisplöntur.

Að málunum unnu lögreglumenn úr fíkniefnahóp lögreglunnar á norðurlandi, sérsveit Ríkislögreglustjóra á Akureyri, vakthafandi lögrelgumenn auk rannsóknarlögreglumanna úr rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri.

Lögreglan minnir á upplýsingasímsvarann 800-5005 og netfangið info@rls.is þar sem fólk getur komið upplýsingum um fíkniefnamisferli nafnlaust á framfæri.