26 Nóvember 2007 12:00

Fulltrúar íbúa í Mosfellsbæ höfðu ýmislegt að ræða þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði til fundar um stöðu og þróun mála í sveitarfélaginu. Fundurinn var haldinn í Varmárskóla sl. fimmtudag en hann sóttu 25 manns. Stefán Eiríksson lögreglustjóri kynnti stefnu og markmið embættisins en síðan fóru Hörður Jóhannesson svæðisstjóri og Rannveig Þórisdóttir, deildarstjóri upplýsinga- og áætlanadeildar LRH, nánar yfir stöðuna og birtu tölfræði sem er jafnframt að finna í nýútkominni skýrslu embættisins. Í henni kemur m.a. fram að hegningarlagabrotum hefur fjölgað hlutfallslega í Mosfellsbæ þegar árin 2005 og 2006 eru borin saman, eða úr 1,8%  í 2,5%. Þess ber þó að geta að fjölgun brota er ekki síst tilkomin vegna frumkvæðisvinnu lögreglumanna og þá er sömuleiðis lögð áhersla á að fólk tilkynni öll brot. Umferðarmál voru líka fyrirferðarmikil á fundinum en um þau fjallaði Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn.

Nokkuð var rætt um útkallstíma lögreglubíla á fundinum sem og staðsetningu lögreglustöðvarinnar. Lögreglustjóri sagði að oft þyrfti að forgangsraða útköllum og þá væri mikilvægt að lögreglu bærust greinargóðar upplýsingar hverju sinni til að meta ástandið. Til skoðunar er að færa aðstöðu lögreglunnar um set í Mosfellsbæ en niðurstaða liggur ekki fyrir. Þá var nýr hverfislögreglumaður kynntur til sögunnar en Guðmundur Sigmundsson tekur við því hlutverki af Guðrúnu Jack, sem fer til annarra starfa hjá lögreglunni. Guðmundur, líkt og Guðrún, er reynslumikill lögreglumaður sem á örugglega eftir að reynast Mosfellingum vel. Ekki voru allir fundarmenn á eitt sáttir um sýnileika lögreglu í bænum. Sumir töldu hana sjást mikið en aðrir lítið. Í framhaldinu barst talið að nágrannavörslu en hún hefur reyndar alltaf verið til staðar með einum eða öðrum hætti í Mosfellsbæ. Talsverðum tíma var einnig varið í að ræða akstur bifhjólamanna. Fundarmenn höfðu jafnt áhyggjur af akstri þeirra á göngustígum sem utan vega og var rætt um að koma upp aðstöðu fyrir þennan hóp. Ýmsar hugmyndir komu fram í þeim efnum en þess má geta að síðar í vetur er fyrirhugaður annar fundur um löggæslumál í Mosfellsbæ. Sá verður opinn öllum íbúum sveitarfélagsins en um það verður fjallað frekar á lögregluvefnum þegar nær dregur.

Hanna Bjartmars bæjarfulltrúi, Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn, Hreiðar Örn Zoega Stefánsson æskulýðsfrömuður og Ásta Steina Jónsdóttir skólastjóri.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Marteinn Magnússon bæjarfulltrúi.

Hörður Jóhannesson svæðisstjóri og Guðrún Jack hverfislögreglumaður.

Svanhildur Svavarsdóttir námsráðgjafi og Hulda Sólrún Guðmundsdóttir sálfræðingur.

Unnur V. Ingólfsdóttir félagsmálastjóri og Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn.