23 Júní 2023 07:30

Eftirfylgnisamtöl að lokinni skýrslutöku vegna kynferðisbrota. 

Öll lögregluembætti á landinu munu bjóða brotaþolum og sakborningum í kynferðisbrotamálum upp á eftirfylgnisamtöl hjá sálfræðingum að lokinni skýrslutöku.  Nýjungin er samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra í samræmi við nýja aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota 2023-2025. 

 

Áfallateymi Landspítalans sinnir eftirfylgnisamtölum við brotaþola. 

Brotaþolum kynferðisofbeldis verður vísað á áfallateymi Landspítalans í eftirfylgnisamtal.  Áfallateymið hefur sérhæft sig í að aðstoða brotaþola í úrvinnslu kynferðisofbeldis. Þjónusta teymisins mun ekki einskorðast við eftirfylgnisamtalið, heldur verður þjónustan aðlöguð að þörfum hvers og eins. Í viðtalinu verður metin þörf á áframhaldandi stuðningi og úrvinnslu fyrir hvern og einn, þ.m.t. meðferð við áfallastreituröskun.  Nánari upplýsingar um áfallateymið 

Sálfræðingar áfallateymisins eru bundnir trúnaði og þagnarskyldu. Það þýðir að ekki má veita öðrum aðila upplýsingar um brotaþola nema með skriflegu leyfi skjólstæðings. Mögulegar undantekningar á þessu eru ef sálfræðingur fær upplýsingar um að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu í samræmi við 17. gr. barnaverndarlaga. Einnig ef grunur leikur á að skjólstæðingur, barn eða þriðji aðili sé líklegur til að valda sér eða öðrum skaða þá ber sálfræðingnum að tilkynna það til viðeigandi stofnunar eða yfirvalda.  

Ef tilvísun er afþökkuð hjá lögreglu að lokinni skýrslutöku er brotaþolum velkomið að hafa beint samband við áfallateymið og óska eftir þjónustu.  

Þjónusta áfallateymisins er brotaþolum að kostnaðarlausu. 

 

Taktu skrefið sinnir eftirfylgnisamtölum við sakborninga. 

Sakborningum í kynferðisbrotamálum mun að lokinni skýrslutöku einnig bjóðast viðeigandi eftirfylgnisamtal hjá sálfræðingi Taktu skrefið.  Í viðtalinu verður jafnframt metin þörf á frekari stuðningi og meðferð.  Taktu skrefið er hópur sálfræðinga sem aðstoðar fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni á netinu eða gagnvart öðru fólki eða hefur beitt kynferðisofbeldi. Nánari upplýsingar um Taktu skrefið. 

Sömu reglur gilda um trúnað sálfræðinga gagnvart sakborningum og brotaþolum. Jafnframt getur dómari úrskurðað að sálfræðingur láti af hendi persónuupplýsingar sem vitni ef slíkur vitnisburður er nauðsynlegur til varnar sakborningi. Einnig ber sálfræðingi að vitna um atriði ef um er að ræða afbrot sem varða minnst tveggja ára fangelsi.  Eftirfylgnisamtalið er sakborningi að kostnaðarlausu og niðurgreiðir félags- og vinnumarkaðsráðherra áframhaldandi meðferð. 

 

Ef sakborningur afþakkar tilvísun frá lögreglu er sakborningi velkomið að hafa beint samband við Taktu skrefið og óska eftir þjónustu. 

 

Frekari upplýsingar um meðferð kynferðisbrotamála innan réttarvörslukerfisins má finna í leiðarvísi á ofbeldisgátt 112.is. 

——– 

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra í síma 8451665.