27 Júlí 2010 12:00

Mikið verður lagt í eftirlit lögreglunnar um komandi Verslunarmannahelgi.   Ljóst er af bókunum til Vestmanneyja að þar verður mjög fjölmennt en búast má við mikilli umferð um allt Suðurland.   Yfirmenn löggæslu á Selfossi, á Hvolsvelli og í Vestmanneyjum hittust á fundi í morgun þar sem farið var yfir skipulag löggæslunnar.

Fíkniefnaeftirlit

Embætti Ríkislögreglustjóra hefur sett upp sérstök teymi lögreglumanna með fíkniefnaleitarhundum til eftirlits á landinu.   Því til viðbótar hefur  lögreglan á Selfossi og í Hvolsvelli sameinast um eitt slíkt teymi og verða hundar og tollverðir frá Tollstjóra þeim til aðstoðar við eftirlit sem mun beinast að ferjuleiðum til Eyja og að tjaldsvæðum og hátíðarhöldum í umdæmunum.     Þá verður fíkniefnaleitarhundur  lögreglunnar í  Vestmanneyjum þar við eftirlit líka.  Störf allra þessara teyma verða samræmd þannig að þegar ekki er sinnt eftirliti við brottför skips eða flugfars mega farþegar reikna með því að í móttökunefndinni á áfangastað verði vinarlegur fíkniefnaleitarhundur.

Umferðareftirlit

Lögregla höfuðborgarsvæðisins mun styrkja umferðareftirlit á Suðurlandsvegi um Hellisheiði og austar eftir því sem þörf krefur og nota við það bifhjól umferðardeildar.  Ljóst er að mikil umferð verður austur fyrir Selfoss og mega vegfarendur búast við því að tafir verði við hringtorgið við Hveragerði og við Ölfusárbrú.   Í því sambandi er rétt að halda því til haga að sumardagsumferð á Austurvegi á Selfossi var á árinu 2006 18.560 bílar og ljóst að þegar slíkur fjöldi bíla er á ferð þá tekur það nokkurn tíma að koma þeim hjá.  Þolinmæði og góða skapið er því gott veganesti.    Þá munu lögreglumenn frá Selfossi sinna eftirliti úr þyrlu Landhelgisgæslunnar a.m.k. 3 daga.   Því eftirliti verður bæði beint að umferðarþyngstu þjóðvegunum,  á landinu öllu og að utanvegarakstri á hálendinu.   Gríðarleg yfirferð næst með þyrlunni og er reynsla manna sú að þetta eftirlit hafi umtalsvert forvarnargildi sem skilar sér í fækkun slysa.

Ökumenn eru minntir á að aka ekki undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.  Sérstök áhersla verður á að láta ökumenn blása í áfengismæla enda mikið í húfi að allir komist heilir heim.  Þá er einnig brýnt fyrir mönnum að nota öryggisbelti enda ljóst að þau bjarga mönnum frá alvarlegum meiðslum og jafnvel bana ef þau eru notuð. 

Nauðsynlegt er að ökumenn tryggi að eftirvagnar, t.d. tjaldvagnar, fellihýsi og hjólhýsi séu í lagi og að ökumenn hafi góða baksýnisspegla og þar með útsýn aftur fyrir vagnana.

Rétt er að vekja athygli þeirra sem ætla að nýta sér  ferðir með Herjólfi til Vestmanneyja að ennþá er unnið við frágang mannvirkjanna þar , þ.m.t. bílastæða og ráðlegt er að vera tímanlega á ferð fyrir brottför til að afgreiðsla og umferð gangi vel fyrir sig.

Áskorun til foreldra

Lögreglan á Suðurlandi skorar á foreldra að fylgjast með ferðum barna þeirra og láta það ekki henda að þau séu eftirlitslaus á tjaldsvæðum eða í útigangi um helgina.  Minnt er á að uppeldi er ekki vinsældarkeppni heldur mikilvægt verkefni sem felur í  sér að skila börnunum okkar út í lífið með sem best veganesti.  Það veganesti getur líka fundist  í því að segja nei þó „allir krakkarnir“ séu að fara að gera eitthvað „rosalega skemmtilegt“  Skynsamlegt er að foreldrar félagahópa tali saman og samræmi það hvað sé leyft og hvað ekki. 

Frágangur heima fyrir

Þeim sem hyggja á ferðalög er bent á að ganga tryggilega frá húsum sínum, loka og krækja aftur gluggum og læsa útihurðum.  Eftirlit nágranna er ein mikilvægasta forvörnin í þessu sambandi en alltaf er eitthvað um að óprúttnir aðilar nýti sér fjarveru heimilisfólks og láti greipar sópa um þau á meðan fjölskyldan er fjarri.